Eldsneytisfyrirtækið Skeljungur hefur sagt upp 29 manns, en fólkið hefur sinnt ólíkum störfum innan fyrirtækisins, ýmist á skrifstofum þess eða afgreiðslustöðvum. Samhliða uppsögnunum hefur skipulagi fyrirtækisins verið breytt, svið sameinuð og stjórnunarstöðum fækkað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Segir í tilkynningunni að markmiðið sé að einfalda reksturinn og samþætta starfsemi Skeljungs á Íslandi og í Færeyjum.
Dregið verður úr sölu- og markaðskostnaði með því að fækka vörumerkjum fyrirtækisins um eitt. Níu eldsneytisstöðvar sem hafa verið reknar undir vörumerki Skeljungs verða færðar undir vörumerki Orkunnar og bætast þar með í hóp 48 annarra Orkustöðva. Auk þeirra rekur félagið 8 stöðvar undir vörumerkinu Orkan X. Segir í tilkynningunni að áherslan með þessu sé að bjóða upp á ódýrt eldsneyti.
„Skeljungur harmar að þurfa að kveðja gott og reynt fólk, sem sumt hvað hefur starfað lengi hjá fyrirtækinu. Skeljungur mun bjóða þeim starfsmönnum sem eiga hlut að máli aðstoð við leit að nýju starfi í samstarfi við ráðningarstofuna Hagvang,“ segir að lokum í tilkynningunni.