„Verksmiðjan á Íslandi er ekki byggð til að verða stórgróðafyrirtæki. En við erum að búa í haginn fyrir verksmiðjur sem geta orðið miklu stærri og með stærðarhagkvæmni verðum við vel samkeppnishæf. Við sjáum tækifæri í Evrópu og í Kína, en þar erum við að stofna dótturfyrirtæki. Við erum að vinna í því að byggja þar tíu sinnum stærri verksmiðju en hérna á Íslandi,“ segir Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling International (CRI), en það er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 2006. Hagnýting koltvísýrings vekur stöðugt meiri athygli en 115 manns mættu hvaðanæva úr heiminum á ráðstefnu í Reykjavík um tæknina á dögunum.
„Við höfum verið að þróa aðferð til að búa til eldsneyti úr koltvísýringi. Við notum raforku til að kljúfa vatn og búa til vetni, síðan tökum við koltvísýring sem annars væri losaður út í andrúmsloftið og notum hann sem hráefni til þess að framleiða metanól,“ segir Benedikt.
„Í þessu tilfelli kemur koltvísýringurinn frá orkuverinu í Svartsengi, því allar jarðvarmavirkjanir losa koltvísýring. Aðferðafræðin er þannig að við getum tekið þennan sama búnað og sett hann upp í iðnríkjum þar sem er mikil losun koltvísýrings frá t.d. sements-, stál- og áburðarverksmiðjum og öðrum slíkum mengandi iðnaði. Metanóli má blanda í bensín, í Evrópu allt að 3%, en það má nota metanól í ýmislegt eins og t.d. lífdíselolíuframleiðslu. Þá er metanólið notað til að umbreyta fitu í díselolíu,“ segir Benedikt.
Hann segir samgöngur hafa sýnt minnstar framfarir í að minnka losun á koltvísýringi og að menn séu að reyna að bregðast við því með því að framleiða rafmagnsbíla, en þeir uppfylli aðeins kröfur smærri bifreiða sem ferðast styttri vegalengdir. „Þeir sem ferðast lengri vegalengdir munu áfram þurfa á fljótandi eldsneyti að halda, t.d. flutningabílar og skip sem sigla á milli landa. Þær aðferðir sem við höfum til að framleiða vistvænt eldsneyti eru annars vegar að nota lífmassa og hins vegar að nota aðferðina okkar,“ segir Benedikt sem telur að tæknin gæti haft merkjanleg áhrif á kolefnislosun á Íslandi.
„Ein góð málmbræðsla notar jafn mikla orku og við þyrftum til að við gætum framleitt eldsneyti að mestu leyti bæði fyrir bíla og skip hér á landi,“ segir Benedikt og bætir við að Norðmenn séu byrjaðir að safna koltvísýringi til að dæla niður í gamlar gaslindir úti í hafi. CRI gæti t.d. auðveldlega tekið við honum í staðinn og nýtt hann í framleiðslu.