Loftslagsbreytingar hafa þau áhrif að innrennsli í lón á Íslandi aukast umtalsvert á næstu 30 árum en virkjanirnar hafa ekki nægilegt afl til þess að taka við þessari aukningu. Unnið er að fjölda verkefna af hálfu Landsvirkjunar til að bregðast við þessari þróun.
Þetta kom fram í erindi Úlfars Linnets, forstöðumanns rannsóknardeildar Landsvirkjunar, á haustfundi fyrirtækisins sem fór fram í Hörpu. Úlfar sagði að niðurstöður mælinga á Vatnajökli krefðust athygli en á 25 árum hefur jökull aðeins stækkað í fjögur skipti.
Á sama tíma hefur innrennsli í lón aukist og vinnslugeta virkjana sömuleiðis, en miðað við spár um þróun loftslags mun vinnslugetan aukast verulega á næstu 30 árum.
„Staðan er sú að virkjanakerfi Landsvirkunar getur unnið 800 gígawattstundum meiri orku en áður var talið árlega vegna þessa. Það er sambærilegt við 100 megawatta virkjun,“ sagði Úlfur. Þá benti hann á að rannsóknir sýni að árið 2050 geti kerfið unnið 750 gígawattstundum meira í en í dag.
„Virkjanirnar hafa ekki nægt afl til að taka við allri aukningunni. Landsvirkun hefur unnið fjölda verkefna til að bregðast við þessum breytingum.“
Umhverfisstjóri Landsvirkjunar, Ragnheiður Ólafsdóttir, rakti hvernig fyrirtækið stefnir að því að verða kolefnishlutlaust árið 2030. Kolefnisspor Landsvirkjunar er nú um 3,5 grömm af koltvísýringi á hverja kílóvattstund, en sem dæmi má nefna að spor Fljótsdalsstöðvar er um 1,5 grömm á kílóvattstund, borið saman við 700 grömm eða þaðan af meira af orkuvinnslu með kolum eða olíu.
Þá kynnti Þórólfur Nielsen, forstöðumaður viðskiptagreiningar, stöðu endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Fram kom í máli hans að raforkuvinnsla valdi um 40% af losun koltvísýrings á heimsvísu, einkum vegna þess að tveir-þriðju raforkunnar komi frá brennslu jarðefnaeldsneytis. Raforkumál séu því í brennidepli loftslagsaðgerða og stór þáttur í þeim aðgerðum hljóti að vera aukning á vinnslu endurnýjanlegrar orku.