Viðskiptaafgangur hyrfi á þremur árum

Aukin ríkisútgjöld í takt við kosningaloforð stjórnmálaflokkanna hefðu í för með sér að viðskiptaafgangur yrði nánast horfinn árið 2020. Einnig yrðu vextir og gengi krónunnar hærri en ella hefði verið.

Þetta kemur fram í Peningamálum Seðlabanka Íslands en þar eru sýnd möguleg áhrif aukins slaka í ríkisfjármálum á þjóðarbúið. Gert er ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist miðað við það sem virðast vera neðri mörk þeirra kosningaloforða sem kynnt voru í aðdraganda kosninga.

Miðað er við að samneysluútgjöld aukist um 16 milljarða króna árlega, tekjutilfærslur til heimila um 6 milljarða og fjárfestingarútgjöld ríkisins um 20 milljarða en þessi viðbótarútgjöld samsvara því að færa hlutfall þessara útgjalda af landsframleiðslu nokkurn veginn upp í meðaltal áranna fyrir fjármálakreppuna.

Samtals nemur útgjaldaaukinn 42 milljörðum króna á ári eða sem svarar 1,7% af landsframleiðslu síðasta árs.

„[...] hefur þessi viðbótarslökun á aðhaldi ríkisfjármála í för með sér að heildareftirspurn í þjóðarbúinu eykst þótt hagvaxtaráhrifin séu minni en sem nemur umfangi útgjaldaaukans þar sem hluti aukinnar eftirspurnar beinist að innfluttri vöru og þjónustu.

Í greiningunni kemur fram að einnig vegi á móti að auknum slaka í ríkisfjármálum verði mætt með aðhaldssamari peningastefnu sem dragi úr eftirspurn einkaaðila til að skapa rými fyrir aukna eftirspurn hins opinbera og hækki gengi krónunnar sem beini enn meiri hluta eftirspurnarinnar út úr þjóðarbúinu. Viðskiptaafgangurinn hverfi því hraðar og sé nánast horfinn árið 2020. 

Hagvöxtur verður um 1 prósentu meiri á næsta ári og um 0,3 prósentum meiri árið 2019 en þegar frá líður deyja áhrif örvunaraðgerðanna út. Meiri hagvöxtur en í grunnspá hefur í för með sér að meiri framleiðsluspenna byggist upp og verðbólga verður því heldur meiri. Á móti vegur hins vegar að vextir Seðlabankans verða um ½ prósentu hærri frá og með næsta ári.

Úr Peningamálum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK