Brotafl ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en félagið er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot sem skipta hundruðum milljóna króna. Tilkynnt var um gjaldþrotið í Lögbirtingablaðinu.
Fyrir um einu og hálfu ári var greint frá því að 5-10 félög væru til rannsóknar hjá héraðssaksóknara og að meðal þeirra væru Brotafl ehf. og Kraftbindingar ehf. Eigandi Brotafls er tengdafaðir annars eiganda Kraftbindinga og samkvæmd upplýsingum mbl.is er málið enn til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.
Farið var í 11 húsleitir þar sem lagt var hald á gögn og fjármuni. Þá fannst einnig ein kannabisræktun og var hald lagt á um 100 plöntur. Níu voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar og fimm þeirra hnepptir í gæsluvarðhald.
Þá rannsakaði mansalsteymi lögreglu höfuðborgarsvæðisins hvort verktakarnir hefðu gerst sekir um mansal á hátt í sjötíu erlendum verkamönnum frá Póllandi, Lettlandi og Litháen en ekkert var aðhafst vegna þess.