Kínverski bílasmiðurinn Trumpchi íhugar að breyta um nafn til þess að höfða betur til bandarískra neytenda en fyrirtækið ætlar að herja á Bandaríkjamarkað árið 2019.
Það er aðeins tilviljun að nafn bílasmiðsins líkist nafni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og á það rætur að rekja aftur til ársins 2010, löngu áður en Trump fór í framboð, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Ríkisfyrirtækið GAC Group framleiðir Trumpchi en yfirhönnuður þess sagði fyrr á árinu að fólk hlægi að nafninu og tæki myndir af því til að birta á samfélagsmiðlum. „Þegar við lásum umsagnir fólks áttuðum við okkur á því að þetta væri kannski ekki besta auglýsingin fyrir vörumerkið.“