Samkvæmt nýlegum skýrslum frá WAN-IFRA, alþjóðasamtökum dagblaða og útgefenda fréttamiðla, um stuðning ríkisvaldsins við fjölmiðla er samanburður á rekstrarumhverfi prentmiðla í helstu nágrannaríkjum okkar, sem og ríkjum Evrópusambandsins, oftar en ekki íslenskum prentmiðlum í óhag.
Sérstök nefnd um rekstrarumhverfi fjölmiðla var skipuð í árslok 2016 og er gert ráð fyrir því að hún muni skila af sér tillögum fyrir lok þessa árs, en ekki er vitað hvers eðlis þær tillögur verða. Hins vegar vakti Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, máls á því í ágúst síðastliðnum að staða fjölmiðla hérlendis væri slæm og að til greina kæmi að endurskoða skattalegt umhverfi þeirra.
Forvitnilegt verður að sjá hvernig hin nýskipaða ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks mun haga þessum málum, en í stjórnarsáttmála hennar er kveðið á um að ríkisstjórnin eigi að huga að breytingum á skattlagningu á tónlist, íslenskt ritmál og fjölmiðla.
Skýrslur þær sem um ræðir eru annars vegar skýrsla WAN-IFRA frá apríl síðastliðnum, „VAT rates applied to news media in EU Member States“, þar sem fjallað er um tilhögun virðisaukaskatts í ESB-ríkjunum, og hins vegar skýrslan „Supporting the media; State measures around the world“, þar sem fjallar er um ríkisstyrki til fjölmiðla um allan heim, en sú skýrsla kom út í júní síðastliðnum.
Þegar rýnt er í þessar skýrslur sést að útgáfa prentaðs máls nýtur í flestum ríkjum Evrópu skattalegrar ívilnunar í formi þess að útgáfa dagblaða er höfð í lægra þrepi virðisaukaskatts. Samkvæmt upplýsingum á vef Ríkisskattstjóra gildir það sama hér á landi, þar sem sala „tímarita, dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða“ er skilgreind sem vara eða þjónusta sem falli í neðra þrep virðisaukaskatts.
Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að hér á landi er skatthlutfall lægra þrepsins 11%, sem er eitt það hæsta í Evrópu. Á sama tíma er meðaltal þess skatts sem Evrópusambandsríkin 28 leggja á prentað mál um 6,98%. Þess má geta að lægra þrepið hér var 7% fram til ársins 2014, en þá var ákveðið að hækka það upp í 11%, á sama tíma og almenna þrepið var lækkað í 24%.
Þegar horft er til ríkja Evrópusambandsins er útgáfa dagblaða undanþegin virðisaukaskatti í þremur ríkjum; Bretlandi, þar sem allt prentað mál er undanþegið virðisaukaskatti, Belgíu og Danmörku.
Af þeim ríkjum sem setja virðisaukaskatt á prentmiðla eru Frakkar með lægsta hlutfallið, 2,1%, en flest hinna ríkjanna hafa lægra þrepið sitt einhvers staðar á milli 4% og 9%. Almenna reglan er sú að prentmiðlar falla undir lægra þrepið en stafrænt efni, eins og til dæmis vefútgáfur áskriftarblaða, telst til vöru sem fellur undir almennt þrep virðisaukaskatts. Tvö ríki Evrópusambandsins, Búlgaría og Slóvakía, skera sig hins vegar úr, þar sem hvorugt ríkið ívilnar prentmiðlum á nokkurn hátt.
Í sumum ríkjum, eins og á Spáni og í Króatíu, þurfa prentmiðlarnir að uppfylla skilyrði um auglýsingamagn til þess að fá lægri virðisaukaskattprósentu. Þannig þurfa dagblöð á Spáni að afla minna en 75% tekna sinna með sölu auglýsinga til þess að útgáfa þeirra falli í lægra þrepið en stjórnvöld í Króatíu hafa ákveðið að virðisaukaskattur á prentmiðla sé annaðhvort 5% eða 13%, eftir því hvort að auglýsingamagnið er meira eða minna en 50%.
Þegar horft er til Norðurlandaríkjanna fimm sést að Ísland leggur hæsta virðisaukaskattinn á prentaða fjölmiðla af öllum Norðurlandaríkjunum. Sem fyrr sagði innheimta dönsk stjórnvöld ekki virðisaukaskatt af sölu prentmiðla en Noregur, sem stendur utan Evrópusambandsins, innheimtir hvorki virðisaukaskatt af prentmiðlum né netmiðlum. Sala prentmiðla í Svíþjóð fellur undir lægra þrep virðisaukaskattsins, sem er 6% þar. Finnar komast hins vegar næst okkur, þar sem lægra þrep virðisaukaskatts nemur 10%.
Hlutfall virðisaukaskatts segir þó ekki nema hálfa söguna um rekstrarumhverfið, þar sem sum þeirra ríkja sem fjallað er um í skýrslum WAN-IFRA ívilna fjölmiðlum einnig með beinni hætti en með lægra skatthlutfalli, eins og með sérstökum styrkjum. Á meðal þeirra ríkja sem ívilna prentmiðlum með þeim hætti má nefna Austurríki, Belgíu, Frakkland og Ítalíu.
Þá veita stjórnvöld í bæði Danmörku og Noregi beina styrki til sumra prentmiðla. Í Danmörku eiga prentmiðlar með fleiri en þremur starfsmönnum sem fjalla um stjórnmál og menningu rétt á styrkjum frá ríkinu, og nemur heildarupphæð þeirra styrkja sem þar er úthlutað um 446 milljónum danskra króna, eða sem nemur tæpum 7,4 milljörðum íslenskra króna.
Í Noregi eiga prentmiðlar sem gefnir eru út í 6.000 eintökum eða minna rétt á framleiðslustyrk frá ríkinu, og nema styrkirnir um 313 milljónum norskra króna, eða sem nemur tæpum fjórum milljörðum íslenskra króna.