Hagvöxtur á Íslandi á þriðja ársfjórðungi er sá minnsti sem mælst hefur í tvö ár. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Vísbendingar eru um að verulega sé farið að hægja á hagvexti hér á landi.
Hagvöxtur mældist þannig 3,1% á þriðja ársfjórðungi á þessu ári borið saman við sama fjórðung árið áður. Tekið er fram að um bráðabirgðatölur Hagstofunnar sé að ræða. Hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi var 3,4% og 7,4% á síðasta ári í heild.
Rifjað er upp að í spá hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember hafi verið gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði 5,5% á þessu ári.
„Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur 4,3% og er hann því minni en við spáum að verði yfir árið í heild. Hér er þó rétt að benda á að þetta eru bráðabirgðatölur auk þess sem tölur fyrir fjórða ársfjórðung munu hafa sín áhrif á vöxtinn.“