Samtök atvinnulífsins telja að í árslok 2016 hafi skort a.m.k. tvö þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kemur í nýrri greiningu frá efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins.
„Við sjáum ekki betur en að framboðsskorturinn muni fara vaxandi á næstu þremur árum ef miðað er við talningu Samtaka iðnaðarins og áætlaða íbúðaþörf á næstu árum,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs samtakanna, í umfjöllun um húsnæðisskortinn í Morgunblaðinu í dag.
Að mati samtakanna er húsnæðisvandinn fyrst og fremst framboðsskortur. „Það þarf því að grípa til einhverra ráða strax til að auka framboð íbúða til að unnt sé að mæta væntri íbúðaþörf. Að öðrum kosti mun skortur á framboði einfaldlega áfram ýta undir frekari hækkun íbúðaverðs að öðru óbreyttu,“ segir hún.