Gildi lífeyrissjóði var ekki kunnugt um hluthafafund Klakka síðastliðinn mánudag þar sem tillaga um mögulegar bónusgreiðslur til stjórnar og stjórnenda var afgreidd, að því er kemur fram í tilkynningu frá Gildi.
Klakki, sem á 100% hlut í Lykli, segir að eigendur félagsins, sem er að mestu í eigu erlendra aðila, hafi tekið ákvörðun um mögulegar kaupaukagreiðslur sem tengist söluferlinu á Lykli, sem er helsta eign félagsins. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að upphæðin geti numið 550 milljónum kr. Klakki segir að þetta sé ekki endanleg upphæð. Hún geti verið mun lægri eða jafnvel engin.
Í tilkynningunni frá Gildi kemur fram þar sem sjóðunum hafi ekki verið kunnugt um hluthafafundinn hafi hann því ekki getað tekið afstöðu til tillögunnar. Hefur Gildi óskað eftir frekari upplýsingum um hvað felst í þeirri tillögu sem samþykkt var um kaupaukagreiðslur á hluthafafundinum.