Þrátt fyrir að Facebook hafi styrkt fjárhag sinn á árinu var það hræðilegt að mati blaðamanns Bloomberg og spáir hann því að 2018 verði enn verra.
Leonid Bershidsky blaðamaður segir að vandi fyrirtækisins risti djúpt. Í stað þess að „byggja alþjóðasamfélag“, eins og Mark Zuckerberg forstjóri hefur orðað það, sé Facebook að „slíta vef samfélagsins í sundur“, en það voru orð Chamath Palihapitiya, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Facebook. Hann meinar börnum sínum að nota Facebook til þess að þau verði ekki háð þeirri dópamínskömmtun heilans sem leiðir af notkuninni.
Auk þess hefur einelti og áreiti tekið á sig nýja mynd á samfélagsmiðlum og hefur sú þróun orðið til þess lagasetning er farin að taka mið af því að varpa ábyrgð á ólöglegu efni yfir á fyrirtækin sjálf. Í Þýskalandi er þegar búið að setja lög sem skylda samfélagsmiðla að fjarlægja hatursorðræðu.
Skatttekjur eru einnig löggjafanum hugleiknar. Facebook, eins og Google, bókar nær allar sínar færslur utan Bandaríkjanna, á Írlandi, þar sem fyrirtækjaskattur er lægri en víðast hvar á Vesturlöndum. Til að mynda greiddi Facebook aðeins 10,1% af hagnaði til írska ríkisins á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Stórar Evrópuþjóðir leita nú leiða til þess að fá sinn skerf af tekjum fyrirtækisins.
Þetta eru meðal þeirra þátta sem Leonid Bershidsky segir að geti valdið Facebook vandræðum. Líklegt sé að Facebook þurfi að lúta nýjum áherslum stjórnvalda og almennings í framtíðinni.