Ef íslensk heimili fullnýttu þær yfirdráttarheimildir sem þau hafa fengið hjá bönkunum næmi vaxtakostnaður vegna þess um 9,7 milljörðum króna á ári. Almennir yfirdráttarvextir liggja í dag á bilinu 11,95% og 12%.
Samkvæmt upplýsingum sem ViðskiptaMogginn hefur aflað frá bönkunum og Seðlabanka Íslands virðast heimilin þó aðeins draga á innan við helming þeirra heimilda sem þau hafa rétt á samkvæmt samningum við bankana.
Samkvæmt tölum sem Seðlabanki Íslands heldur utan um námu yfirdráttarheimildir íslenskra heimila 81,2 milljörðum króna í október síðastliðnum. Er heimildin álíka há og í október í fyrra þegar hún nam réttum 81 milljarði króna á þáverandi verðlagi. Tölurnar sýna hins vegar að heimildirnar hafa farið lækkandi á síðustu árum, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í ViðskiptaMogganum í dag.