Árið sem nú er næstum liðið var ekki laust við stórtíðindi í viðskiptalífinu. Framkvæmastjórar til margra ára létu af störfum og nýir stjórnendur komu á sjónarsviðið. Hér eru mest lesnu vistaskiptin árið 2017.
Það dró til tíðinda þegar Birkir Hólm Guðnason lét af störfum sem framkvæmdastjóri Icelandair samhliða tilkynningu um breytingar á skipulagi samstæðunnar sem fólu í sér samþættingu á starfsemi hennar. Birkir var ráðinn framkvæmdastjóri í maí 2008 og hafði þá starfað hjá Icelandair um árabil.
Ragnhildur Geirsdóttir var í sumar ráðin aðstoðarforstjóri WOW air en hún hafði síðustu fimm ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra rekstrar og upplýsingatækni hjá Landsbankanum. Í kjölfar ráðningarinnar sneri Skúli Mogensen forstjóri sér að langtíma stefnumótun og uppbyggingu félagsins erlendis.
Lilja Björk Einarsdóttir tók við starfi bankastjóra Landsbankans í vor. Hún hafði starfað sjálfstætt sem ráðgjafi og á árunum 2008 til 2016 stýrði Lilja starfsemi, eignaumsýslu og endurheimt eigna gamla Landsbanka Íslands í London. Hún tók við af Steinþóri Pálssyni sem hafði verið bankastjóri 2010.
Umtalsverðar breytingar áttu sér stað í Íslandsbanka í vor þegar Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka, Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VÍB, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur hjá greiningardeild Íslandsbanka, létu af störfum ásamt 17 öðrum starfsmönnum bankans vegna skipulagsbreytinga. Jón Bjarki Bentsson tók við starfi aðalhagfræðings greiningardeildarinnar en Ingólfur Bender var um sumarið ráðinn hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.
Ármann Þorvaldsson settist í forstjórastólinn hjá Kviku banka í vor en hann hafði gegnt starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjaráðgjafar hjá Virðingu. Áður var hann framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings frá 1997 til 2005 og framkvæmdastjóri Kaupþings Singer & Friedlander í Bretlandi frá 2005 til ársins 2008. Þá var Marinó Örn Tryggvason ráðinn aðstoðarforstjóri bankans.
Þegar samruni 365 miðla og Fjarskipta var til umsagnar hjá Samkeppniseftirlitinu tók Ingibjörg Pálmadóttir, eigandi 365 miðla, við af Sævari Frey Þráinssyni sem forstjóri fyrirtækisins til þess að gegna starfinu þangað til samruninn hlyti blessun eftirlitsins. Sævar Freyr tók hins vegar við starfi bæjarstjóra Akranesbæjar.
Magnús Kristinsson lét af störfum sem framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Bergur-Huginn eftir að hafa gegnt stöðunni í tæp 40 ár. Magnús seldi Berg-Huginn til Síldarvinnslunnar árið 2012.
Sigrún Ragna Ólafsdóttir var ráðin nýr forstjóri Mannvits í vetur og tók við störfum af Sigurhirti Sigfússyni. Sigrún Ragna var forstjóri VÍS frá 2011 til 2016 en þar áður var hún framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hjá Íslandsbanka frá 2008 til 2011.
Helgi Bjarnason ráðinn forstjóri VÍS í vor en hann kom frá viðskiptabankasviði Arion banka þar sem hann hafði verið framkvæmdastjóri frá október 2011.