Innflutningur á reiðhjólum hefur glæðst verulega á árinu. Þannig voru á fyrstu tíu mánuðum ársins flutt inn 24.243 hjól. Í fyrra nam innflutningurinn alla tólf mánuði ársins 19.128 hjólum og því ljóst að aukningin mun verða veruleg milli ára. Nemur hún nú þegar um 26,7%.
Þrátt fyrir hina miklu aukningu er innflutningurinn mun minni en árið 2008. Þá var slegið met og ríflega 28 þúsund hjól komu til landsins. Það ár var vöxturinn töluverður frá fyrra ári en allt árið 2007 var innflutningurinn um það bil sá sami og hann stefnir í á þessu ári, 25.162 hjól.
Í kjölfar bankaáfallsins 2008 hrundi innflutningurinn um tæpan helming og reyndist aðeins 14.808 hjól. Árin á eftir var svo svipaða sögu að segja. Jókst hann nokkuð árin 2010 og 2011 og fór yfir 16.000 hjól. Féll hann aftur 2012 þegar ríflega 14.700 komu ný til landsins en frá þeim tíma hefur vöxturinn verið nokkuð stígandi.
Þegar litið er til innflutningsverðs á hjólunum kemur margt forvitnilegt í ljós. Skoðað á föstu verðlagi sést að verð á hverju innfluttu hjóli (CIF – innkaupsverð, trygging og flutningsgjald), hækkaði stöðugt allt frá árinu 2008 þegar það reiknaðist 14.079 krónur að meðaltali. Hæst fór verðið í 46.134 krónur í fyrra og hafði því hækkað um 228% frá fyrrnefndu ári, 2008. Í ár bregður hins vegar svo við að verðið lækkar aftur töluvert og er tæpum 19% lægra en í fyrra. Heimildir Morgunblaðsins herma að lækkunina megi m.a. skýra af harðnandi samkeppni hjólreiðaverslana við beina netverslun. Þannig hafi stórar hjólreiðaverslanir, bæði á grundvelli harðari samkeppni og einnig aukins magns, náð fram hagstæðari kjörum frá framleiðendum.