Franska mjólkurfyrirtækið Lactalis hefur keypt Siggi's skyr. Ekki kemur fram í tilkynningu hvert kaupverðið er. Fyrirtækið, „The Icelandic Milk and Skyr Corporation“ var stofnað af Sigurði Hillmarssyni árið 2006 og selur skyr í 25 þúsund verslunum í Bandaríkjunum. Siggi's verður áfram rekið sjálfstætt og undir stjórn sömu einstaklinga og áður, það er Sigurður verður áfram forstjóri og Bart Adlam stjórnarformaður.
Í fréttatilkynningu er haft eftir Sigurði að hann sé spenntur að ganga til liðs við Lactalis en þar fái fyrirtækið möguleika á því að vaxa enn frekar. Áfram verði sömu gildi við lýði hjá Siggi's, hreinleiki og lítill sykur.
Svissneska mjólkurfyrirtækið Emmi hefur jafnframt selt 22% hlut sinn í siggi’s til Lactalis.
Lactalis var stofnað í Frakklandi fyrir rúmum áttatíu árum af André Besnier. Í tilkynningu kemur fram að Lactalis sé stærsta mjólkurafurðarfyrirtæki heims með yfir 75 þúsund starfsmenn í 85 löndum.
Fyrirtækið er stærsti ostaframleiðandi heims en meðal vörumerkja er Président®, Galbani®, Parmalat®, Stonyfield Farm®, Bridel, Rachel's Organic og Skånemejerier, að því er segir í fréttatilkynningu.
Fréttablaðið greindi fyrst frá mögulegri sölu og Vísir frá sölu á fyrirtækinu í morgun.