Farþega sem átti bókað tengiflug með WOW air frá Berlín til Los Angeles var tjáð að hann þyrfti að greiða 112 þúsund krónur til þess að fá að sleppa fyrra fluginu og ferðast beint frá tengistaðnum til Los Angeles. Upplýsingafulltrúi WOW air rekur málið til bókunarkerfisins.
„Ég átti bókað flug frá Berlín til Íslands og síðan Los Angeles og ætlaði að sleppa leggnum frá Berlín til Íslands en þau vildu rukka mig um 112 þúsund krónur fyrir að breyta miðanum og selja mér aftur sama sætið,“ segir Sunna Guðnadóttir.
Sunna endaði á því að kaupa miða til Berlínar til þess að geta tekið flugið til Íslands. Hún hafði ekki erindi sem erfiði í samskiptum við þjónustuver fyrirtækisins. „Ég lenti í einhverjum reglum sem ekki var hægt að gera neitt í.“
Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir mál af þessu tagi sjaldgæf og rekur það til þess hvernig bókunarkerfið virkar.
„Tengiflug er skráð sem eitt flug í bókunarkerfinu þó að um millilendingu í Keflavík sé að ræða. Því er gengið út frá því að farþeginn mæti á upphafspunkt ferðarinnar. Annars er skráð eins og hann hafi aldrei mætt í flugið. Breyting eða niðurfelling á öðrum hvorum hluta tengiflugs lýtur því almennum fargjaldareglum.“
Svanhvít nefnir að annað eigi við um flug með WOW air fram og til baka. Þá gildi farmiðinn til baka óháð því hvort farþeginn hafi nýtt miðann sinn út.