Þiggja ekki fjárgjöf eftir þuklsamkomu

Kon­un­um var gert að klæðast á ákveðinn hátt. Meðal ann­ars …
Kon­un­um var gert að klæðast á ákveðinn hátt. Meðal ann­ars var skylda að mæta á háum hæl­um. mbl.is/AFP

Barnaspítalinn Great Ormond Street segist ekki ætla að þiggja fjárgjafir samtakanna Presidents Club. Samtökin stóðu fyrir góðgerðarsamkomu í London í síðustu viku, þar sem aðeins körl­um var boðið sem gest­um en konunum í salnum var greitt  fyr­ir að vera þar og gert að klæðast á ákveðinn hátt.

Verða góðgerðarsamtökin raunar lögð niður í kjölfar fréttar af kynferðislegri áreitni á samkomunni. Meðal félaga í samtökunum eru auðmenn, þekktir einstaklingar og stjórnmálamenn sem nú geta ekki þvegið hendur sínar nógu hratt af samkomunni.

Great Ormond Street spítalinn er heldur ekki eina stofnunin sem notið hefur góðs af gjöfum samtakanna, sem nú hefur tilkynnt að féð verði endurgreitt. 

Fréttir af samkomunni, þar sem grínistinn David Walliams var veislustjóri, hafa vakið mikla reiði. Meðal gesta voru auðmenn á borð við Sir Philip Green og  Peter Jones. Menntamálaráðherra Bretlands Nadhim Zahawi var einnig meðal gesta og sá hann ekki tilefni til að lýsa yfir áhyggjum af því sem þar fór fram. Segir Guardian að Zahawi hafi verið víttur fyrir þátttöku sína og er Theresu May forsætisráðherra sagt ofbjóða ásakanir af því sem þar fór fram.

Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green var meðal gesta á samkomunni.
Breski kaupsýslumaðurinn Philip Green var meðal gesta á samkomunni. AFP

Samtökin lögð niður og sjóðir tæmdir

Hafa góðgerðarsamtökin nú tilkynnt að þau verði lögð niður og sjóðirnir tæmdir.  

Samkoman var haldin á Dorchester hótelinu á fimmtudaginn fyrir viku og snæddu gestirnir þar veislurétti og drukku kampavín áður en haldið var uppboð til að safna fé til góðgerðarmála.  

Financial Times greindi fyrst frá málinu, en blaðamaður frá þeim var staddur á samkomunni í gervi þeirra kvenna sem greitt var fyrir veru sína þar. Segir blaðamaðurinn Madison Marriage, að ítrekað hafi verið þuklað á sér og að fjölda kvenna hafi verið boðið að koma upp á hótelherbergi. Sagði ein kvennanna að þær sem voru valdar til þátttöku í samkomunni hafi verið „háar, grannar og sætar“. Bætti hún því næst við að einn gestanna hefði berað typpi sitt fyrir framan sig. 

Formaður samtaka góðgerðafyrirtækja í Bretlandi segist í áfalli yfir fréttum af samkomunni og hefur farið fram á neyðarfund með stjórnarmeðlimum samtakanna að því er fréttastofa Sky greinir frá.  

„Persónulega er ég skelfingu lostin yfir fréttum af samkomunni,“ skrifaði formaðurinn Helen Stephenson. „Stjórnin hefur gert það alveg ljóst að við teljum þetta ekki eiga við í nafni góðgerðarsamtaka, hvort sem safna eigi fé fyrir góðan málstað eða ekki.“

Kvaðst hún hafa sett sig í samband við Financial Times og hafa óskað frekari upplýsinga „svo hægt væri að rannsaka málið til fulls“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK