Hagvöxtur á evrusvæðinu tók kipp árið 2017 og hefur ekki verið meiri í tíu ár, eða allt frá fjármálahruninu. Nam hagvöxturinn 2,5% samkvæmt tölum frá Eurostat og er töluvert meiri en 1,8% hagvöxtur ársins á undan.
Á fjórða ársfjórðungnum óx evrusvæðið um 0,6% og nákvæmlega sömu vaxtatölur fást ef öll Evrópusambandslöndin eru skoðuð. Síðast var hagvöxtur hærri árið 2007 en þá var hann 3%.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tilkynnti í síðustu viku spá um að heimshagkerfið myndi vaxa um 3,9% á þessu ári og því næsta. Iðnríkin myndu einnig búa við gott vaxtarskeið.