Risar dýfa tánum í djúpu laugina

Warren Buffett, forstjóri Berkshire Hathaway, Jeff Bezos, forstjóri Amazon og …
Warren Buffett, forstjóri Berkshire Hathaway, Jeff Bezos, forstjóri Amazon og Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan Chase hafa tekið höndum saman um að útvega starfsmönnum sínum heilbrigðisþjónustu. AFP

Ákvörðun þriggja risafyrirtækja í Bandaríkjunum um að stofna fyrirtæki um heilbrigðisþjónustu starfsmanna sinna er til marks um þá óánægju sem ríkir meðal bandarískra fyrirtækja á heilbrigðiskerfi landsins og þann sívaxandi kostnað fólks sem því fylgir.

Amazon, Berkshire Hathaway og JP Morgan Chase hafa sameinast um stofnun fyrirtækisins og var fyrirætlunin tilkynnt í gær. Samanlagður starfsmannafjöldi fyrirtækjanna þriggja er um 1 milljón.

Í fréttaskýringu New York Times um málið segir að tilkynningin hafi valdið ólgu í heilbrigðisgeiranum þar sem nýir aðilar reyna að sækja að óskilvirkri þjónustu og flóknu neti lækna, sjúkrahúsa og trygginga- og lyfjafyrirtækja.  

Ekki er að fullu enn ljóst með hvaða hætti fyrirtækin ætla að bjóða starfsfólki sínu heilbrigðisþjónustu og hversu víðtæk hún verður. Óvíst er hvort þjónustan mun felast í því að finna lækni og meðferðir sem þegar eru í boði og hvort reynt verði að semja um lægra verð á lyfjum og meðferðum.

Hlutabréf í félögum á heilbrigðismarkaði féllu í verði eftir tilkynningu …
Hlutabréf í félögum á heilbrigðismarkaði féllu í verði eftir tilkynningu risafyrirtækjanna þriggja í gær. AFP

Þar sem fyrirtækin ætla aðeins að bjóða starfsmönnum sínum þjónustu hins nýja heilbrigðisfyrirtækis verður vel fylgst með árangrinum. Ef vel tekst til gæti hér verið á ferðinni nýtt líkan og fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki.

Ferskur andvari

Stór fyrirtæki á borð við Walmart og Caterpillar hafa lengi reynt að finna leiðir til að lækka heilbrigðiskostnað starfsmanna sinna og minnka flækjustigið sem viðgengst innan heilbrigðiskerfisins vestanhafs.

Rúmlega 150 milljónir Bandaríkjamanna fá sjúkratryggingar sínar í gegnum vinnuveitendur sínar. Fyrirtækin eru því orðin langþreytt á því að þingið taki ekki á tryggingakerfinu sem hefur þrýst fólki til að kaupa tryggingar frá einkaaðilum.

Tilkynning fyrirtækjanna þriggja í gær kom því eins og ferskur andvari inn í umræðuna. Ekki var kátínan jafn mikil á hlutabréfamörkuðum og virði bréfa í tryggingafélögum og fleiri fyrirtækjum sem tengjast heilbrigðisgeiranum féllu í verði.

Nýta ólíka styrkleika

En hvað er svona sérstakt við þessa ákvörðun risafyrirtækjanna?

Í nýju heilbrigðisfyrirtæki verða leiddir saman ólíkir styrkleikar Amazon, öflugustu vefverslunar heims, eignarhaldsfélagsins Berkshire Hataway, sem stýrt er af milljarðamæringnum Warren E. Buffet, og JP Morgan Chase, stærsta banka Bandaríkjanna.

Saman ætla þau að herja á markað þar sem línur milli aðila s.s. lyfjaverslana og tryggingafélaga eru sífellt að verða ógreinilegri, eins og það er orðað í fréttaskýringu New York Times.

Í tilkynningu fyrirtækjanna þriggja í gær kom fram að tilgangurinn með stofnun heilbrigðisfyrirtækisins væri ekki að hagnast. Í yfirlýsingu Jamie Dimon, forstjóra JPMorgan Chase, kom fram að hugmyndin gæti síðar meir gagnast öllum Bandaríkjamönnum. „Eins erfitt og það gæti orðið þá teljum við það þess virði að minnka heilbrigðiskostnað, starfsmönnum okkar og fjölskyldum þeirra til heilla,“ sagði Jeff Bezos, stofnandi og framkvæmdastjóri Amazon í yfirlýsingu.

Vinir fengu hugmynd

Bezos, Dimon og Buffet er vel til vina og varð hugmyndin til þeirra á milli, samkvæmt heimildum New York Times.

Fyrirtækin þrjú segjast ætla að einbeita sér á að nota tæknina til að einfalda heilbrigðisþjónustuna en hafa ekki upplýst hvernig þau hyggjast draga úr kostnaði. Ekki er ætlunin þó talin sú að nýja fyrirtækið komi alfarið í staðinn fyrir tryggingar sem fólk kaupir eða sjúkrahúsþjónustu sem það nýtir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK