Á hluthafafundi Arion banka í dag var samþykkt að 25 milljarðar króna yrðu greiddir til hluthafa. Auk þess er stjórn bankans veitt umboð og heimild til endurkaupa á allt að 10% hlut í félaginu fyrir að hámarki 18,8 milljarða króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu Arion banka til Kauphallarinnar en þar er tekið fram að endurkaup á hlutabréfum dragist frá arðgreiðslunni. Arðgreiðslan og endurkaupin eru sögð að fullu í samræmi við langtímamarkmiði Arion banka um að minnka umfram eigið fé bankans.
Að framkvæmd lokinni lækki eiginfjárhlutfall bankans um ríflega 3% en sé engu að síður vel umfram kröfur FME og það sem bankinn telji hæfilegt. Framkvæmdin er hins vegar háð því að Kaupskil verði búin að selja að minnsta kosti 2% hlut í bankanum fyrir 15. apríl.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að stærstu lífeyrissjóðir landsins muni ekki kaupa hlut í Arion banka á grundvelli tilboðs sem Kaupskil, stærsti eigandi hans, gerðu þeim fyrir skemmstu.