„Það eru til þeir stjórnmálamenn sem finnast mestu skipta að ríkið eigi allt fjármálakerfið. En ég segi ljúkum þeirri vinnu sem hér hefur staðið yfir við hina miklu endurskipulagningu fjármálakerfisins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Viðskiptaþingi í dag.
Viðskiptaþing var haldið á vegum Viðskiptaráðs Íslands á Hilton Nordica í dag og var forsætisráðherra einn af framsögumönnum á þinginu. Yfirskrift þingsins var „Straumhvörf - samkeppnishæfni í stafrænum heimi“ en eftir að hafa rætt um tæknibreytingar vék Katrín að fjármálakerfinu.
„Það er mikilvægt að endurreist fjármálakerfi kalli ekki aftur á sömu fórnir og að almenningur fái að njóta þess árangurs sem endurreisnin hefur skilað,“ sagði Katrín og tók fram að við endurskipulagningu fjármálakerfisins væri ekki forsenda að ríkið ætti allt bankakerfið.
„Ríkistjórnin vill með skynsamlegum hætti draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Það er ekki skynsamlegt fyrir ríkið að bera ábyrgð á öllum helstu fjármálastofnunum landsins.“
Þá sagði Katrín að svara þyrfti lykilspurningum sem snúa að viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, gegnsæi eignarhalds og hæfi eigenda.
Tilkynnt var í dag um sölu Kaupþings, aðaleiganda bankans, á rúmum 5% hlut í Arion banka til innlendra og erlendra sjóða. Ríkið á enn 13% hlut í bankanum en Kaupskil eiga kauprétt á hlut ríkisins.