Samkvæmt ársreikningi Arion banka fyrir árið 2017 sem birtur var í gær var eiginfjárhlutfall samstæðu bankans 24,0% og lækkaði úr 26,8% árið áður. Þá var svokallað hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 23,6% og lækkaði úr 26,1%.
Áformar bankinn að lækka eiginfjárhlutfall sitt enn frekar á komandi árum og að hlutfall almenns eiginfjárþáttar fari niður í um 17%. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem birtur var í gær.
Lækkun eiginfjárhlutfallsins milli ára má einkum rekja til ákvörðunar um arðgreiðslu eða kaup á eigin bréfum bankans sem tilkynnt hafði verið um fyrir birtingu ársreikningsins. Vegna samnings um stöðuleikaframlög hafði meirihlutaeigandi bankans, félagið Kaupskil sem er í eigu erlendra kröfuhafa Kaupþings, ekki viljað taka út arðgreiðslur fyrr en nú.