Vogunarsjóðurinn Eaton Vance Management hefur bætt við hlut sinn í Símanum og er nú kominn með yfir 10% eignarhlut. Sjóðurinn bætti 30 milljónum hluta við eignasafn sitt á fimmtudaginn, en gengi Símans í lok vikunnar var 4,17 krónur á hlut. Sjóðurinn keypti því í félaginu fyrir um 125 milljónir. Sjóðurinn hefur jafnt og þétt bætt við sig, en í september fór hlutur hans upp í 6,58%.
Eaton Vance Management hefur verið að stækka umsvif sín hér á landi upp á síðkastið. Um mitt sumar jókst hlutur hans í Högum upp í rétt rúm 5% og 8,76% í VÍS. Þá á sjóðurinn 5,57% hlut í fasteignafélaginu Reitum og 5,54% í Regin.
Eaton Vance Management samanstendur af sex sjóðum, Global Opportunities Portfolio, Global Macro Portfolio, Global Macro Absolute Return Advantage Portfolio, JNL/Eaton Vance Global Macro Absolute Return Advantage Fun, Pacific: IGPACSEL/Pacific Select Fund Global Absolute Return Fund og PF Global Absolute Return Fund.