Bankasýsla ríkisins telur að sala ríkisins á eignarhlutnum í Arion banka sé skynsamleg þar sem ríkissjóður Íslands muni fá betri ávöxtun en ríkissjóðir annarra landa hafa fengið við fyrstu sölu á eignarhlut í viðskiptabönkum.
Í tillögu Bankasýslu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðherra er talið upp rakið hvers vegna stofnunin telji að nýta eigi kaupréttinn og hvers vegna kaupréttarverðið sé ásættanlegt.
Stofnunin segir að sala ríkisins á 13% eignarhlut vegna nýtingar Kaupskila á kaupréttinum sé skynsamleg ráðstöfun. Í fyrsta lagi sé sala á eignarhlut í fjármálafyrirtæki í samræmi við áherslur stjórnarsáttmálans og í öðru lagi myndi salan minnka áhættu ríkissjóðs vegna eignarhalds á viðskiptabönkum.
„Fari svo að hlutur ríkissjóðs verði seldur í framhaldi af nýtingu umrædds kaupréttar mun ríkissjóður Íslands einnig fá betri ávöxtun en ríkissjóðir annarra landa hafa fengið við fyrstu sölu á á eignarhlut í viðskipta banka,“ segir í tillögunni.
Í þriðja lagi geti muni halla á hagsmuni ríkisins sem hluthafa þegar hlutir í Arion banka verða seldir í almennu útboði en þá falla ýmis verndunarákvæði úr gildi. Þeirra á meðal er réttur Bankasýslunnar til að tilnefna fulltrúa í stjórn og réttur fulltrúans til að beita neitunarvaldi.
Þá muni ríkissjóður áfram hafa fjárhagslega hagsmuni tengda Arion banka eftir sölu eignarhlutarins. Ríkissjóður fái hlutdeild í söluandvirði Kaupþings á hlutum í Arion banka vegna endurgreiðslu skuldabréfs og afkomuskiptasamnings.
Stofnunin telur að miðað við kaupréttarverðið fái ríkissjóður góða ávöxtun, þ.e. 10,8% á hlutafjárframlagi til bankans, eða um 5% umfram ávöxtun ríkisskuldabréfs með líftíma frá september 2009 til október 2018.
Raunávöxtun ríkissjóðs hafi að sama skapi verið góð þar sem kaupréttarverðið er 137,5% hærra en áskriftarverð ríkisins en til samanburðar hafi vísitala neysluverðs hækkað um 41,6% á sambærilegu tímabili.
Telur Bankasýslan að kaupréttarverðið sé að auki ásættanlegt í samanburði við áætlað markaðsverð hlutanna. Bendir stofnunin á að kaupréttarverðið, sem nemur 90,087 krónum á hvern hlut, samsvari því að markaðsvirði alls hlutafjár Arion banka sé 0,80x af bókfærðu virði eigin fjár hluthafa.
Til samanburðar hafi Kaupþing boðið lífeyrissjóðum að kaupa hlut í Arion á verði sem samsvaraði 0,805x af bókfærðu virði.
Þá bendir Bankasýslan á að kaupréttaverðið, þ.e. 23,4 milljarðar króna, sé mun hærra en bókfært virði eignarhlutarins í ríkisreikningi, þ.e. 9,8 milljarðar króna.