Fjöldi einkaleyfa á Íslandi er úr takt við þróun erlendis. Umsóknum sem Einkaleyfastofunni bárust frá íslenskum aðilum vegna tæknilegra uppfinninga hefur fækkað um 40% frá árinu 2007 til ársins 2017. Þetta kemur fram í skýrslu Samtaka iðnaðarins Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina.
Þetta er öfugt við alþjóðlega þróun því á sama tímabili sexfaldaðist heildarfjöldi umsókna, frá erlendum aðilum meðtalið, um einkaleyfi hér á landi. Árið 2017 tók Einkaleyfastofan á móti yfir 1.500 umsóknum um einkaleyfi á Íslandi, en 3,5% þeirra umsókna komu frá íslenskum lögaðilum sem er einnig lágt í sögulegum samanburði, segir í skýrslunni.
Einungis tvö einkaleyfi eru í gildi hjá íslenskum aðilum í orkuiðnaði, segir í skýrslu samtakanna, og ekkert í jarðvarmaiðnaði. Samt sem áður hafi Ísland náttúrulegt forskot, þrátt fyrir að háum fjárhæðum hafi verið varið í rannsóknir og þróun í þeim greinum. Í skýrslunni segir að það geti veikt samkeppnisstöðu Íslands til lengri tíma litið.
Skýrsluhöfundar vekja athygli á tengdu atriði. Þegar horft er til þess hvaða nám fólk velur sér sést að Ísland var með hlutfallslega fáa skráða í STEM-fögin svokölluðu á árinu 2016 en þau taka til stærðfræði, raunvísinda, verkfræði og tæknifaga. Hlutfallið er með því lægsta innan OECD, 19% á Íslandi og 26% að meðaltali í OECD. Þessi mælikvarði er oft notaður til að meta tækifæri landa til framþróunar og nýsköpunar og er því nátengdur samkeppnishæfni, segir í skýrslunni.