Hækkun á heildargreiðslum til forstjóra N1 getur ekki hafa komið hluthöfum í félaginu á óvart þar sem upplýst er á hverju ári um að kjör yfirstjórnar séu árangurstengd. Tillaga um óbreytta starfskjarastefnu verður lögð fyrir á fundinum.
Þetta kemur fram í skýrslu stjórnar af aðalfundi N1 sem fer nú fram í höfuðstöðvum félagsins en Margrét Guðmundsdóttir er stjórnarformaður þess. Í skýrslunni segir að árangurstenging á launum yfirstjórnar N1 hafi leitt til umtalsverðrar hækkunar á heildargreiðslum í fyrra vegna þess að árið 2016 hafi verið besta árið í sögu félagsins.
Bent er á að ef litið er 4 ár aftur í tímann blasi við að að meðallaun á stöðugildi hafi hækkað um 27%, laun vakt- og stöðvarstjóra hafi hækkað um 35% og 34% og launavísitalan um 36%. Á tíma hafi föst laun og hlunnindi í framkvæmdastjórn hækkað um 9% og föst laun og hlunnindi forstjóra um 3% en rúm 36% að meðtöldum kaupauka ársins 2017.
„Í desember sl. var gengið frá launabreytingum forstjóra og framkvæmdastjóra. Niðurstaðan var sú, að föst laun þessara stjórnenda hækka að meðaltali um 3,7%. Forstjórinn hækkar um 2,6% og verða föst laun hans skv. því 46,8 milljónir króna á árinu 2018. Þá liggur nú fyrir að kaupaukisem greiðist til forstjóra vegna niðurstöðu ársins 2017 er 11,4 milljónir og lækkar hann um rúm 45% á milli ára. Heildarlaun forstjóra lækka samkvæmt því um 12,6% milli ára og verða að meðaltali sem svarar kr. 5.131 þúsund á mánuði. Það svarar til 5,4% hækkunar frá þeim launum sem hann hafði á árinu 2016.“
Á fundinum verður lögð fram tillaga um óbreytta starfskjarastefnu en tekið er fram að hlustað verði grannt eftir því hvort hluthafar telji þörf fyrir áherslubreytingu.
„Ég rek þessar launaupplýsingar hér af meiri nákvæmni en áður hefur tíðkast enda skylt, þar sem úr átt hluthafa hafa heyrst býsna stóryrtar yfirlýsingar, eins og að stórfellt afbrot hafi átt sér stað. Ekkert er því þó fjarri. Raunar tel ég að býsna vel hafi tekist til um rekstur og stjórn N1 síðustu árin.“