Ávinningur háskólamenntunar fer dvínandi

Fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hefur ekki eingöngu farið dvínandi heldur er hann með því allra minnsta sem gerist í Evrópu og er langt undir meðaltali ESB. Vandamálið er að hér á landi er markaðsbrestur þar sem framboð háskólamenntaðra og eftirspurn atvinnulífisins mætast ekki. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Viðskiptaráðs. Þar er bent á að undanfarin ár hafi sérhæfðum störfum ekki fjölgað í takti við aukna fjölgun háskólamenntaðra hér á landi, hvort sem litið sé til almenna eða opinbera vinnumarkaðarins. Störfum fyrir háskólamenntaða hafi einungis fjölgað um 51% á sama tíma og háskólamenntuðum hefur fjölgað um 184%. 

Afleiðing þess að framboð háskólamenntaðs starfsfólks er meira en eftirspurnin er meðal annars sú að fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hér á landi hefur dvínað umtalsvert.

Árið 2016 voru ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra að jafnaði 22% hærri en hjá grunnmenntuðum. Á einungis 10 árum hefur hlutfallið lækkað um nærri helming [...] Fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar hefur ekki eingöngu farið dvínandi heldur er hann með því allra minnsta sem gerist í Evrópu og er langt undir meðaltali ESB.“

Í umfjöllun Viðskiptaráðs segir að ein birtingarmynd rýrnandi ávinnings háskólamenntunar hér á landi séu erfiðleikar við að laða að erlenda sérfræðinga. Ísland standi mjög höllum fæti í þessum efni og ef horft er til mælikvarða á samkeppnishæfni þjóða sem snúa að erlendum háskólanemum, erlendu starfsfólki og alþjóðlegri reynslu starfsfólks sé Ísland meðal lægstu þjóða. 

Þrjár lausnir lagðar til

Viðskiptaráð telur að stjórnvöld geti bætt umhverfi háskólamenntaðra með því að lækka jaðarskatta í hagkerfinu en þó þurfi að huga að stærri og fjölbreyttari lausnum. Þrjár lausnir eru lagðar til. 

Í fyrsta lagi þarf samstillt átak stjórnvalda til þess að búa til umgjörð svo hægt sé að skapa verðmætari störf. Afnám þaks á endurgreiðslur rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja er sagt vera augljóst fyrsta skref.

Í öðru lagi þarf að beina námsfólki í þeir greinar sem spurn er eftir. Lagt er til að dregið verði úr fjölda útskrifaðra í greinum sem minni spurn er eftir. Það getur til dæmis falist í fjöldatakmörkunum og strangari inntökuskilyrðum í ákveðnum greinum líkt og þekkist nú þegar. Huga mætti einnig að öðrum hvötum, til dæmis í gegnum námslánakerfið.

Í þriðja lagi ætti ekki að vera ofuráhersla á háskólamenntun þar sem hennar er ekki þörf. 

Svo virðist sem atvinnulífið sé því að nota háskólamenntun sem ákveðna síu og jafnvel gæðastimpil. Þannig er frekar verið að horfa til sjálfs skírteinisins heldur en um þeirrar hæfni og sérþekkingar sem býr að baki [...] Þó að með háskólamenntun fáist tiltekin þjálfun sem nýta má víðast hvar í vinnu er það augljóslega dýr leið til þess eitt [sic] að fá staðfestingu á að viðkomandi geti verið duglegur og metnaðarfullur í vinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK