Hjúkrunarheimilið Sóltún er einkarekið og þar búa 92 íbúar á hverjum tíma. Starfsemi þess hófst formlega árið 2002 en í þrjú ár þar á undan hafði undirbúningur að starfseminni staðið yfir. Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri og hjúkrunarforstjóri Sóltúns hefur allan þann tíma staðið vaktina. Hún segir að lyfta þurfi grettistaki í uppbyggingu hjúkrunarrýma og að það eina sem þurfi til sé vilji stjórnvalda til að hefjast handa. Hennar fólk segist reiðubúið til að hefja byggingu rúmlega 100 rýma heimilis strax á morgun ef kallið kemur.
„Ríkiskaup höfðu umsjón með ferlinu og útbúin var mjög ítarleg kröfulýsing sem við fylgdum í þátttöku okkar í útboðinu. Það tóku nokkrir aðilar þátt en við urðum hlutskörpust. Ég heillaðist svo af verkefninu að þegar mér var boðið að taka við stjórn nýs hjúkrunarheimilis þá gat ég ekki sagt nei við því. Það var svo í janúar 2002 sem fyrstu íbúarnir fluttu inn. Þá var mikið vatn runnið til sjávar. Ég hef verið hér allar götur síðan og samningurinn er til 25 ára þannig að það er ekkert fararsnið á mér,“ segir Anna Birna.
Hún segir að á þeim tíma þegar ráðist var í byggingu Sóltúns hafi þörfin fyrir hjúkrunarrými verið mikil en að hún sé síst minni í dag. Samkvæmt opinberum tölum eru hjúkrunarrými í landinu um 2.700 talsins og áætlað er að þeim þurfi að fjölga um að minnsta kosti 1.800 á næstu 12 árum eða til ársins 2030. Anna Birna segir að stórátak standi fyrir dyrum ef það eigi að lánast.
„Við teljum að raunverulegur biðlisti eftir hjúkrunarrými í landinu sé á bilinu 500 til 700 einstaklingar. Það er langur listi og því miður er staðan sú að margir lifa ekki af til þess að fá að njóta þjónustunnar. Það er óþolandi staða sem verður að taka á. Við höfum þessi 92 rými á Sóltúni en við getum á morgun hafist handa við annað sambærilegt hjúkrunarheimili við hliðina á þessu. Ef stjórnvöld vilja semja við okkur um það gæti það gerst þess vegna á morgun.“
Spurð út í kostnaðinn við rekstur hjúkrunarrýma segir hún að það fari að nokkru leyti eftir þjónustuþunganum, þ.e. hversu mikil þörfin fyrir þjónustu er hjá hverjum og einum.
„Almennt myndi ég segja að daggjaldið geti ekki farið undir 28 þúsund krónur á verðlagi 2016. Það þýðir að hvert hjúkrunarrými kostar um 1 milljón á mánuði. Sá kostnaður getur þó hæglega verið hærri þegar tekið er tillit til umönnunarálags og síðan til húsnæðiskostnaðar eða leigu og meiri þjónustu sem víðast er þörf. Verðlag 2017 og 2018 liggur ekki ennþá fyrir hjá ríkinu. Rekstraraðilar hafa almennt gagnrýnt hversu lág daggjöldin hafi reiknast hjá ríkinu og að þau hafi ekki dugað til að mæta þeim kröfum sem ríkið gerir og þeim þörfum sem íbúar hjúkrunarheimila hafa.“
Anna Birna segir kostnaðinn í raun ekki háan þegar hann er settur í samhengi við aðra hluti. Þannig sé erfitt að fá hótelherbergi í miðborg Reykjavíkur á minna en 27 þúsund krónur nóttina. Þó sé þar ekki verið að veita þá umfangsmiklu þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum í kringum landið.
„Það er ekkert mál að reisa hótel með fjórum eða fimm stjörnum og sirka inn á þennan markhópinn eða hinn. Við erum hins vegar að reka heimili fyrir fólk sem í raun vill ekki búa hérna. Það á sér enginn þann draum að flytja á hjúkrunarheimili en líkamlegt og andlegt atgervi fólks ræður því að það getur ekki snúið aftur heim eftir að hafa lent á sjúkrahúsi. Það þarf að huga sérstaklega vel að þörfum og líðan fólks í þeirri aðstöðu.“
Miðað við raunkostnað af rekstri hjúkrunarrýma má því gera ráð fyrir að í dag kosti rekstur þeirra um 2,7 milljarða króna á mánuði eða ríflega 30 milljarða á ári.
Anna Birna bendir á að sá kostnaður sé borinn af annars vegar hinu opinbera og hins vegar þjónustuþegunum sjálfum.
„Í lögum er kveðið á um að íbúar á hjúkrunarheimilum taka þátt í dvalarkostnaði. Almannatryggingar falla niður við flutninginn og sú regla virkjast reyndar meðan fólk er enn á spítala eftir ákveðið langan dvalartíma þar. Ef fólk er að auki með lífeyristekjur og fjármagnstekjur þá geta greiðslur hvers og eins verið mismunandi háar, en ekki er tekið af tekjum umfram rúmlega 400 þúsund krónur á mánuði. Enginn heldur þó minna eftir en ríflega 90 þúsund krónum af sínu sjálfsaflafé.“
Allt frá opnun Sóltúns í upphafi nýrrar aldar hefur mjög gott orð farið af þjónustunni þar. Þá hefur fyrirtækið skorað hátt í alþjóðlegum samanburði. Anna Birna segir að þar ráði engar tilviljanir.
„Þegar við settumst niður og fórum í gegnum útboðslýsingu hins opinbera settum við niður fyrir okkur hvernig við vildum hafa hlutina. Það sem mestu skipti þó var að við höfum skýrar hugmyndir um hvernig við vildum ekki hafa hlutina. Það er hægt að gera mörg mistök sem kosta mikla fjármuni og koma í raun í veg fyrir að reksturinn gangi upp og þjóni þeim tilgangi sem hann á að þjóna.“
Hún segir að frá upphafi hafi ætlunin verið sú að forðast langa spítalaganga þar sem margir búa saman dags daglega. Það þekki það allir að málamiðlunum fjölgar þegar heimilismönnum fjölgar og því hafi verið dregið úr slíkum áhrifum við hönnun hússins.
„Húsið hönnuðum við með tilliti til þessa og það er eins og krossfiskur. Það er fjórar álmur á þremur hæðum og það tryggir að við getum verið með 8 manns í því sem við köllum sambýli en ekki deildir. Þar þarf enginn að deila baði með öðrum og hvert herbergi er 30 fermetrar. Það þótti beinlínis mikill íburður á þessum tíma. Af 1700 rýmum sem þá voru í notkun á höfuðborgarsvæðinu voru aðeins 100 einbýli. Með tilkomu Sóltúns varð í raun bylting í þessum efnum og það gaf tóninn fyrir það sem á eftir kom. Í nokkur ár á eftir var ég samt að svara umræðu um að þetta væri alltof mikið og að fólk hefði í gegnum aldirnar búið saman á baðstofuloftunum.“
Hún segir að frá þessum tíma hafi nær eingöngu verið reist einbýli. Þau hafi hins vegar tekið hugsunina lengra og í hönnuninni var ákveðið að mæta þeim möguleika að hjón gætu búið saman á Sóltúni.
„Á 12 stöðum í húsinu er hægt að tengja saman herbergi með millihurðum. Það tryggir að hjón geta dvalið sitt í hvoru rýminu sem er samtengt eða haft svefnherbergi í öðru þeirra og t.d. stofu í hinu. Þetta fyrirkomulag hefur komið mjög vel út.“
Anna Birna segir mikið áhyggjuefni að lítið sem ekkert hefur bæst við af hjúkrunarrýmum frá því að Sóltún var reist um aldamótin.
„Það sem byggt hefur verið hefur í raun aðeins mætt þeim lokunum sem orðið hafa. Það er búið að loka Víðinesi, Vífilsstöðum, Holtsbúð og fleirum og Ísafold, Boðaþing og Mörkin aðeins mætt þeim lokunum. Raunar finnst mér t.d. að Mörkina hefði þurft að hanna betur en gert var. Þar eru herbergin ekki nema 25 fermetrar. Við erum með 30 fermetra sem ég held að sé algjört lágmark í dag og Boðaþing hefur t.d. farið í 35 fermetra. Þetta er mikilvægt vegna þeirra hjálpartækja sem oft þarf að notast við í umönnun við íbúana. Ef þessi tæki komast ekki almennilega fyrir þá fer starfsfólkið að beita sér af meira erfiði og eins kemur þetta niður á möguleikum fólks til þess að hafa einkamuni sína í herbergjunum og það er ekki gott og hefur ekki góð áhrif á íbúana.“
En Anna Birna segir að rétt hannað hús hafi ekki aðeins áhrif á íbúana heldur einnig starfsemina í víðara samhengi.
„Við vildum strax tryggja að starfsfólkið þyrfti ekki að vera á þeytingi út um allt hús. Við erum með 7000 fermetra byggingu en við röðum starfsfólkinu niður á íbúana og obbinn af starfsfólkinu vinnur bara á þeim stað þar sem tiltekinn hópur íbúa býr. Það er helst á nóttunni sem þetta breytist en þá er t.d. hjúkrunarfræðingur yfir öllu húsinu sem þarf að fara á milli.
Fyrir utan áhrifin sem rétt hannað hús hefur á fólkið sem þar býr og starfar þá hefur þetta gríðarleg áhrif á reksturinn. Ég hef komið að rekstri hjúkrunardeilda mjög víða og byggingarnar geta haft gríðarleg áhrif á reksturinn. Stundum þurfti ég t.d. að manna varðstöður um húsin því húsnæðið var svo óhentugt. Þannig getur hönnun dregið gríðarlega úr kostnaði alveg eins og léleg hönnun getur leitt til mikils kostnaðar.“
Anna Birna segir að strax frá upphafi hafi verið ákveðið að hafa íbúana, þjónustuþegana, í öndvegi og leggja áherslu á þeirra vellíðan.
„Við vitum að ef íbúunum á að líða vel þá verður starfsfólkinu að líða vel einnig. Þess vegna ákváðum við strax að taka starfsmannamálin mjög föstum tökum. Við skiljum að einstaklingur sem er kominn í þessa stöðu – meðalaldurinn er 86 ár og þrír íbúar sem eru yfir 100 ára – býr ekki yfir orku til þess að kynnast nýju og nýju fólki. Þess vegna viljum við að sama starfsfólkið þjónusti hvern og einn sem allra lengst. Það er ekki hægt ef starfsmannaveltan er mikil.“
Það hefur tekist og er starfsmannaveltan hjá Sóltúni með því allra lægsta sem þekkist í heilbrigðisþjónustu eða 12-14% á ári. Anna Birna segir að þrotlaus vinna liggi að baki því að halda starfsmannaveltunni svo lágri en hún segir að það spari mikla fjármuni og tryggi gæði þjónustunnar.
„Gæðastjórnunin er mjög mikilvæg. Í grunninn byggjum við á hinni ítarlegu útboðslýsingu og tilboðinu okkar sem varð partur af henni. Á því var byggt í upphafi en verklagsreglur og stefnumörkun eru mjög reglubundið ferli hjá okkur. Við förum yfir þetta með starfsfólkinu og stillum saman strengi. Það tryggir líka að morgun-, kvöld- og næturvaktirnar vinni að sömu markmiðum og að hlutirnir séu í föstum skorðum fyrir íbúana.“
Þegar Sóltún var tekið í notkun var á sama tíma innleidd notkun búnaðar sem fengið hefur heitið Vökull. Anna Birna segir að búnaðurinn hafi sannað gildi sitt svo um munar.
„Þetta er kerfi sem ég kynntist á alþjóðlegri ráðstefnu í London á sínum tíma. Ég heillaðist af því þar sem það er hannað fyrir fólk sem getur ekki kallað sjálft á hjálp, t.d. fólk sem er að berjast við heilabilun eða getur ekki tjáð sig. Þannig getur þessi búnaður hjálpað til og er sniðinn að hverjum einstaklingi á grundvelli hjúkrunaráætlunar. Hann hjálpar fólki gríðarlega.
Um 90% af íbúunum okkar eru í svokallaðri byltuáhættu. Þeir kannski halda að þeir komist fram á bað án þess að hringja eftir hjálp og reyna það þótt það sé áhætta sem þeir eigi ekki að taka. Þegar viðkomandi reynir svo að fara fram á bað þá fær sjúkraliðinn sem er honum til stuðnings boð um hvað er að gerast og getur þá komið strax á staðinn og komið í veg fyrir óhapp. Þarna hjálpar okkur búnaður í rúmi viðkomandi. Þessi búnaður kemur einnig í veg fyrir að fólk liggi þvagblautt í rúmi sínu og það skiptir miklu máli til að koma í veg fyrir óþægindi og jafnvel að fólk fái sár og annað.“
Anna Birna viðurkennir að stofnkostnaður við kerfið hafi reynst töluverður á sínum tíma.
„Ég held að af þeirri ástæðu hafi kerfið ekki fengið útbreiðslu hér á landi. En ég get fullyrt að kerfið er ekki dýrt þegar á heildina er litið, og það er löngu sannað. Það kemur í veg fyrir óþægindi, þjáningar og kostnað af völdum aðgerða sem annars þyrfti að senda fólk í þegar óhöpp verða.“
Hún segir að Vökull sé þó aðeins eitt dæmi af mörgum um að vönduð innkaup geti skipt sköpum upp á framhaldið og að vandaður búnaður geti til lengri tíma sparað mikla fjármuni.
„Það var dálítið hlegið að mér þegar ég keypti dýrustu rúmin sem í boði voru, viðarklædd og mjög tæknivædd. Menn sögðu óþarft að kaupa „Rollsinn“ fyrir hjúkrunarheimili af þessum toga. Ég benti þá bara á að við værum að byggja upp til 25 ára og að það væri miklu betra að kaupa trygg tæki og heimilisleg en eitthvað sem þyrfti að skipta fljótt út. Þessi rúm hafa margborgað sig og eru ein sönnun þess að þetta skiptir sköpum.“