Í byrjun þessa árs fól samgönguráðuneytið Vegagerðinni að kalla eftir breytingum á skipinu sem nú er í smíðum hjá skipasmíðastöðinni CRIST C.A. í Póllandi og sinna mun ferjusiglingum milli lands og Eyja á komandi árum.
Breytingarnar sem um er að ræða lúta að því að hægt verði að knýja skipið áfram með rafmagni sem hlaðið verður á rafgeyma þess úr landi. Friðfinnur Skaftason, verkfræðingur í samgönguráðuneytinu, á sæti í byggingarnefnd nýrrar Vestmannaeyjaferju. Hann segir töluverða stefnubreytingu felast í þessari ákvörðun.
„Við hönnun ferjunnar var gert ráð fyrir því að vélar yrðu um borð sem myndu hlaða þar til gerða rafgeyma til að knýja skrúfur skipsins. Þannig var ætlunin að hefðbundnar vélar myndu framleiða rafmagn þegar lítið álag væri á skipið en rafmagnið yrði svo nýtt til að jafna álagið á skipið þegar reyndi á það. Sú tækni hefði sparað allt að 25% olíunotkun miðað við sambærileg skip sem ekki eru búin þessum búnaði. Sá búnaður sem nú hefur verið ákveðið að setja í skipið gengur hins vegar mun lengra,“ segir Friðfinnur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.