Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur seðlabanka iðnríkja til þess að herða peningastefnu sína í hægum skrefum svo að koma megi í veg fyrir efnahagsáföll.
Í nýútgefinni skýrslu AGS er bent á ýmsa áhættuþætti í heimshagkerfinu sem hafa sprottið upp úr löngu lágvaxtatímabili, þar á meðal aukna skuldsetningu og verðhækkanir á áhættusömum eignum. Efnahagsbati iðnríkja er sagður geta farið af sporinu verði skyndilegar breytingar á aðstæðum.
„Fjárhagslegir veikleikar, sem hafa hlaðist upp á árum lágra vaxta og lítilla sveiflna, gætu lagt stein í götu hagvaxtar og stofnað honum í hættu,“ segir í skýrslunni sem gefin er út tvisvar á ári.
Skyndilegt verðbólguskot í Bandaríkjunum er sagt geta leitt til þess að seðlabanki Bandaríkjanna hækki vexti hraðar en nú er búist við. Tobias Adrian, forstöðumaður fjármálamarkaðadeildar AGS, segir í samtali við fréttaveituna AFP að óvissa í kringum verðbólgu sé enn væg en varaði jafnframt við því að markaðurinn gæti brugðist við skyndilegum breytingum með öfgafullum hætti.
„Það sem við erum að vara við er að á einhverjum tímapunkti munum við horfa fram á meiri verðbólgu sem mun hækka verðbólguvæntingar og það gæti leitt til hærri langtímavaxta og krappari fjárhags.“
Þá eru nýmarkaðslönd (e. emerging markets) sögð sérstaklega berskjölduð gagnvart þeirri keðjuverkun sem leiðir af slíkri atburðarás.