„Ég reikna með að arðsemin í ferðaþjónustu muni ekki batna fyrr en gengi krónunnar veikist. Krónan er of sterk fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar í viðtali á miðopnu ViðskiptaMoggans.
„Fjölmörg fyrirtæki hafa sprottið upp í ferðaþjónustu á undanförnum árum. Ég á von á því að á næstunni verði nokkuð um samruna og jafnvel einhverja grisjun. Fyrirtækin verða að eflast með aukinni stærðarhagkvæmni.“
Bjarnheiður segir að ekki sé alltaf hægt að fleyta gengisstyrkingu krónunnar að öllu leyti í verðlagið. Það myndi leiða til þess að verð yrði of hátt. „Sterk króna dregur alla jafna úr arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu vegna þessa. Framlegðin er ekki mikil um þessar mundir,“ segir hún.
Það sem flækir myndina við rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu er að þau gera samninga eitt og hálft til tvö ár fram í tímann vegna þess að ferðirnar fara þá í sölu og eru kynntar í bæklingum og víðar. „Margir kaupa ferðirnar með góðum fyrirvara. Við þurfum því að setjast niður með spádómskúlu og giska á hver gengisþróunin verður eftir tvö ár, og vonast til að gengið þróist ekki á verri veg,“ segir Bjarnheiður.