Tekjur gististaða sem seldu gistinætur í gegnum Airbnb voru 14,7 milljarðar árið 2017 og jukust um 25% miðað við árið 2016 þegar þær námu 11,8 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar sem byggir tölurnar á virðisaukaskattskilum. Ferðamenn keyptu ríflega 1,9 milljónir gistinátta í gegnum vefsíður á borð við Airbnb árið 2017.
Auk þess áttu erlendir ferðamenn um 850 þúsund gistinætur þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Þar af voru gistinætur í bílum utan tjaldsvæða áætlaðar um 520 þúsund á síðasta ári og ríflega 330 þúsund gistinætur hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.
Helmingur gistinátta erlendra ferðamanna árið 2017 var á hótelum og gistiheimilum og um 19% á gististöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður. Aðrar gistinætur utan hefðbundinnar gistináttatalningar (s.s. í bílum utan tjaldsvæða eða í húsaskiptum) voru um 8,5% af gistinóttum erlendra ferðamanna árið 2017.
Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 voru gistinætur ferðamanna seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður 307 þúsund og ógreiddar gistinætur erlendra ferðamanna 63 þúsund. Hagstofan mun framvegis birta mánaðarlegar tölur yfir heildarfjölda greiddra gistinátta, auk fjölda ógreiddra gistinátta erlendra ferðamanna. Tölur fyrir apríl 2018 verða birtar í lok maí.