Samkeppniseftirlitið svarar Ara Edwald

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar. Samsett mynd/mbl.is

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar, fór hörðum orðum um Samkeppniseftirlitið á fundi Viðskiptaráðs í vikunni og endurtók hann skoðun sína í viðtali við K100 í vikunni. Samkeppniseftirlitið hefur í kjölfar orða Ara svarað honum á heimasíðu sinni og vísar þar orðum hans á bug og vísar í umsagnir og ákvarðanir sínar af ýmsum málum upp á síðkastið.

Ari sagði meðal annars í viðtalinu að eftirlitið teldi RÚV og Stöð 2 (365 miðla) ekki eiga í samkeppni. Vísar Samkeppniseftirlitið til þess að í ákvörðun sinni um samruna Fjarskipta hf. og 365 miðla hf. Þar hafi meðal annars verið tekið fram að RÚV og Stöð 2 væru keppinautar á efniskaupamarkaði fyrir sjónvarp, að RÚV veiti 365 samkeppnislegt aðhald og að markaður fyrir auglýsingar í sjónvarp falli bæði auglýsingar fyrir opið sjónvarp og áskriftarsjónvarp.

Þá segir eftirlitið ekki rétt sem Ari hélt fram að Samkeppniseftirlitið telji Netflix efnisveituna ekki vera á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp. „Þetta er ekki rétt“, segir í tilkynningunni. Vísað er til fyrrnefndrar samrunaákvörðunar þar sem tekið hafi verið til sérstakrar skoðunar hvort ólínulegt áskriftarsjónvarp sé á sama markaði og línulegt sjónvarp og þar með hvort Netflix teljist á sama markaði og hefðbundið áskriftarsjónvarp. Eftirlitið hafi ekki skorið endanlega um það, en tekið veltu streymisveitna með í útreikninga á markaðshlutdeild.

Samkeppnieftirlitið svarar Ara einnig um að þá fullyrðingu hans að Fríhöfnin hafi verið tekin út fyrir sviga sem snyrtivörusali þegar eftirlitið ógilti samruna Haga og Lyfju. Vísar Samkeppniseftirlitið til þess að við skoðun sína hafi meðal annars verið rannsakað hvort Fríhöfnin teldist hluti af mörkuðum með því að afla gagna um veltu, tíðni viðskipta og dreifingu sölunnar. Þá hafi einnig sérstök neytendakönnun verið framkvæmd. „Niðurstöður þessarar rannsóknar gáfu eindregið til kynna að verslun í Fríhöfninni væri ekki hluti af markaði málsins, þótt hún veitti innlendri verslun ákveðið samkeppnislegt aðhald,“ segir í tilkynningu eftirlitsins.

Lesa má svar eftirlitsins í heild sinni á hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK