Verð á bensínlítra mun hækka um 4% í maí gangi spá greiningardeildar Arion banka eftir. Á móti er búist við því að flugfargjöld lækki álíka mikið.
Greiningardeild bankans spáir 0,3% hækkun á vísitölu neysluverðs í maí. Tólf mánaða taktur verðbólgunnar mun þannig hækka í 2,4% úr 2,3% frá því í síðasta mánuði.
Eins og áður segir er spáð 4% hækkun á verði bensínlítrans og 3,44% hækkun á verði dísellítrans. Vægi eldsneytis í vísitölu neysluverðs hefur aukist í 3,15% úr 1,86% og áhrifin eru því meiri nú en þau hefðu orðið fyrir nokkrum mánuðum.
Þá bendir mæling greiningardeildarinnar á flugfargjöldum til lækkunar upp á rúmlega 4%. Búist er við að árstaktur verðbólgu sveiflist í kringum verðbólgumarkmið fram á sumar en fari síðan í um 3% í haust.
Sjá nánar um greininguna í Markaðspunktum.