Það krefst stundum einbeitingar að vera jákvæður í iðnaði sem sumir tengja alla jafna bara mengandi stóriðju. Þetta sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir iðnaðarráðherra á ársfundi Samáls í Hörpu í morgun. Íslenski áliðnaðurinn gangist hins vegar við eigin ábyrgð með viðleitni sinni til að draga úr losun.
Sagði ráðherra að mörgu leyti bjart yfir áliðnaðnum um þessar mundir, bæði hér heima og erlendis. M.a. hafi heimsmarkaðsverð farið hækkandi undanfarin ár.
„Á ársfundi Landsvirkjunar í gær kom þannig fram að methagnaður fyrirtækisins á síðasta ári var að miklu leyti til kominn vegna áhrifa hækkandi álverðs og álverðstengds söluverð raforku og einnig aukinnar raforkusölu til stórnotenda,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Kauptilboð Norsk Hydro í Ísal væri einnig jákvætt og traustsyfirlýsing „af hálfu þessa öfluga norska félags gagnvart bæði Ísal, Íslandi og starfsumhverfinu hér á landi.“
Tilkynning Alcoa, Rio Tinto, Apple og stjórnvalda í Kanada um fjárfestingu í þróun á óbrennanlegum rafskautum sem vakið hafi verðskuldaða athygli, sé þá ekki síður merkileg. „Nú hafa þessi fyrirtæki gefið út opinberlega að þau stefni á að markaðssetja fullbúna tækni í ársbyrjun 2024. Telja verður harla ólíklegt að slíkar yfirlýsingar væru gefnar út nema yfirgnæfandi lýkur væru taldar á árangri,“ sagði ráðherra og kvað ekki þurfa að fara mörgum orðum um þýðingu þessarar tækni. „Álver myndu hætta að losa koldíoxíð og þess í stað fara að losa súrefni.“ Þátttaka Apple í verkefninu væri þá vísbending um hversu verðmæt slík framleiðsla sé talin geta verið á markaði vegna umhverfisvitundar neytenda.
„Þetta er mjög jákvæð þróun fyrir Ísland. Öll viðleitni til að ýta undir aðgreiningu álafurða eftir kolefnisfótspori er að mínu mati til þess fallin að styrkja samkeppnishæfni íslenskra álframleiðslu. Við höfum í raun beðið eftir að sú þróun fari af stað og nú er hún greinilega komin á skrið af alvöru,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Hún bætti við að nýsköpunarfyrirtæki hér á landi hafi unnið að sambærilegri tækni og vinnsla þess og annarra íslenskra fyrirtæki séu góð dæmi um að tækifærin í kringum áliðnaðinn snúist ekki bara í kringum álframleiðslu og –úrvinnslu. „Reynslan sýnir að tækifærin eru líka í tengslum við allskyns þjónustu við álverin.“
„Það krefst ábyggilega stundum einbeitingar að vera jákvæður þegar maður starfar í iðnaði sem sumir kalla helst aldrei annað en mengandi stóriðju í opinberri umræðu,“ sagði Þórdís Kolbrún. Áliðnaðurinn hafi gengist við eigin ábyrgð með upplýsingagjöf sinni og viðleitni til að draga úr umhverfisárhrifum. „Viðleitni sem hefur skilað verulegum árangri, ekki síst varðandi losun gróðurhúsalofttegunda.“
Eftir að hafa gengist við losuninni, geti áliðnaðurinn líka snúið vörn í sókn með það hversu umhverfisvænt álið geti verið í notkun. „Vegna endurvinnslu getur sama álið haldið áfram að gefa getur gefið umhverfislegan ávinning um ókomna tíð,“ sagði ráðherra og kvað ekki margar framleiðslu- eða atvinnugreinar geta státað af þessu sama.