Mikilvægi þess að fá breitt og blandað eignarhald, bæði íslenskt og erlent, eru ástæður þess að farið er í tvíhliða skráningu Arion banka bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Þetta segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, í samtali við mbl.is, en í morgun var greint frá því að skrá ætti bankann á markað á fyrri hluta ársins. Áður hefur áhugi erlendis frá um kaup í bankanum verið nefndur, allt frá árinu 2014 sem og í tengslum við skoðun lífeyrissjóða og fjárfesta að kaupa í bankanum.
Í raun gefur sá tímarammi aðeins sjö vikur í verkið, en samkvæmt því sem mbl.is kemst næst er ekki ólíklegt að skráningarferli, frá birtingu skráningarlýsingar til formlegrar skráningar á markaði, taki 4-6 vikur.
Höskuldur segir að tilkynningin um fyrirhugaða skráningu Arion banka sé ákveðin tímamót fyrir bankann. „Þetta er mikilvægt fyrir bankann og líka mikilvægt fyrir bankakerfið sem slíkt þar sem víða er óæskilegt eignarhald,“ segir hann og vísar til þess að íslenska ríkið sé stærsti eigandi bankakerfisins. Einnig eigi eignarhaldsfélag í Arion banka sem vilji selja sinn hlut, enda líti það ekki á sig sem langtímafjárfest. „Þetta er mikilvæg vegferð fyrir Arion og kerfið,“ segir hann um þau skref sem nú eru stigin og bætir við að með þessu verði bankakerfið heilbrigðara.
Fjármálaráðuneytið sendi í kjölfar yfirlýsingar Arion banka í morgun frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að ríkið myndi ekki nýta sér forkaupsrétt að bréfum í Arion banka. Spurður hvort þetta hafi verið mikilvægt atriði fyrir skráningu Arion banka segir Höskuldur að það hafi verið atriði sem hafi þurft að klára, það skipti máli að vera ekki með atriði sem þessi meðan á skráningu í Kauphöllina stendur.
Í yfirlýsingu Arion banka í morgun kemur meðal annars fram að markmið bankans til millilangs tíma sé að ná kostnaðarhlutfallinu undir 50%. Í fyrra var það 56,1% og á fyrstu þremur mánuðum þessa árs nam það 70,8%. Höskuldur segir að horft sé til þess að viðmiðið náist á næstu árum.
Eignahaldsfélag Kaupþings sem á 55,57% í bankanum í gegnum félagið Kaupskil mun við skráningu selja allavega 25% hlut í bankanum. Þá gæti Attestor Capital einnig selt eitthvað af hlutum sínum, en sjóðurinn á í dag 12,44% í Arion banka.
Aðrir hluthafar eru Taconic Capital með 9,99%, Och-Ziff Capital með 6,58% og Goldman Sachs International með 3,37%. Þá á bankinn sjálfur 9,5%. Greint hefur verið frá því að starfsmenn bankans muni fá hlutabréf í honum og er líklegt að það muni dragast frá eign bankans.
Ekkert hefur enn verið gefið upp um verðbil sem horft verður á í útboðinu, en í fyrra þegar lífeyrissjóðir voru að skoða að fjárfesta í bankanum var miðað við 0,8 krónur á hverja krónu af eigin fé bankans. Samkvæmt árshlutareikningi nemur það í dag um 204 milljörðum. Sé miðað við 25% sölu í bankanum nemur það tæplega 41 milljarði á því verði.
Samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins í morgun nemur andvirði skuldabréfs Kaupþings við ríkið, sem gefið var út í tengslum við stöðuleikasamningana um 29 milljörðum. Söluandvirði þeirra bréfa sem seld verða nú við frumskráningu verða greiddar inn á skuldabréfið samkvæmt tilkynningunni.