„Fólk í atvinnulífinu óttast viðbrögð Samkeppniseftirlitsins sem er að verða ríki í ríkinu,“ skrifar Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í pistli á heimasíðu samtakanna.
Hann rifjar upp að árið 2011 hafi Samkeppniseftirlitið knúið á um að fá heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar Samkeppnismála til dómstóla. Það sé nánast einsdæmi í stjórnsýslunni.
„Það er óviðunandi að fyrirtæki þurfi að verjast málflutningi Samkeppniseftirlitsins fyrir dómi með tilheyrandi kostnaði þrátt fyrir að hafa fengið endanlega og jákvæða niðurstöðu á stjórnsýslustigi.“
Halldór segir að heimildir sem Samkeppniseftirlitið hafi knúið á um að settar verði inn í íslenska löggjöf, og ganga lengra en víðast hvar í Evrópu, hafi orðið til þess að íslenskt atvinnulíf beri takmarkað traust til Samkeppniseftirlitsins.
„Í ljósi ríkra íhlutunarheimilda Samkeppniseftirlitsins er nauðsynlegt að svigrúm sé fyrir málefnalega umræðu um beitingu þeirra en vegna þessara heimilda draga margir við sig að fjalla um samkeppnismál þótt unnt væri að varpa skýrara ljósi á málsmeðferð og aðkomu yfirvalda en nú tíðkast,“ skrifar Halldór.
Hann bendir á að beiting samkeppnisreglna sé matskennd og geti ráðist af ytri aðstæðum. Forsendur sem eru lagðar til grundvallar í samkeppnismálum séu oft ekki ljósar fyrir fram og óvissa geti ríkt um réttindi og skyldur einstakra fyrirtækja.
„Strangari reglur hér en í samkeppnislöndunum draga úr getu innlendra fyrirtækja til að standast erlenda samkeppni.“