Fjármálaeftirlitið sektaði fjármálafyrirtæki um alls 170 milljónir króna á árinu 2017 samanborið við tæplega 70 milljónir árið 2017. Tekjur stofnunarinnar af eftirlitsgjaldinu jukust um hátt í hálfan milljarð.
Þetta kemur fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins. Hæstu sektina greiddi verðbréfafyrirtækið Arctica Finance, samtals 72 milljónir, fyrir að hafa greitt starfsmönnum kaupauka í formi arðs af B, C og D hlutum í félaginu frá og með 2012 til og með 2017.
Næsthæsta sektin var lögð á Kviku banka fyrir hafa í mars 2017 greitt tilteknum starfsmönnum, félögum í eigu þeirra eða maka kaupauka í formi arðs af hlutum í B flokki hlutabréfa. Nam sektin 37,5 milljónum króna.
Á árinu 2017 voru 47 mál tekin til rannsóknar með tilliti til þess hvort lög hefðu verið brotin á verðbréfamarkaði sem er fækkun um eitt mál frá árinu 2016. Þar af vörðuðu 17 mál markaðssvik. Flestum þessara athugana hefur verið lokið án aðgerða en einu málanna var vísað til rannsóknar hjá danska fjármálaeftirlitinu. Þá voru tvö mál kærð til héraðssaksóknara.
Rekstrargjöld Fjármálaeftirlitsins námu 2.079 milljónum króna á árinu 2017 og jukust um 2,2% frá fyrra ári. Launakostnaði nam 1.696 milljónum króna og hækkaði um 3,2%.
„Hækkun launa á árinu er nokkuð undir almennum launahækkunum á markaði og endurspeglar hagræðingu sem náðist í mannahaldi á árinu.“
Heildarrekstrartekjur Fjármálaeftirlitsins námu 2.229 milljónum króna á árinu 2017 og þar af voru tekjur af eftirlitsgjaldi 2.167 milljónir á móti 1.710 milljónum á árinu 2016. Nemur aukningin 457 milljónum króna, eða um 27%.
Samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, skulu eftirlitsskyldir aðilar standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins með sérstöku eftirlitsgjaldi.