Ríkisskattstjóri birti í dag lista yfir 40 hæstu skattgreiðendur. Efst á lista er Sigríður Vilhjálmsdóttir sem þarf að greiða tæpar 426 milljónir króna í skatta í ár. Hún ásamt systkinunum Kristjáni Loftssyni og Birnu Loftsdóttur sem skipa 6. og 7. sæti eru stærstu hluthafarnir í Fiskveiðihlutafélaginu Venusi hf. sem er stærsti hluthafi Hvals hf. (um 40% eignarhlutur).
Í 2. til 4. sæti eru þeir Sigurður Sigurbergsson, Magnús Soffaníasson og Rúnar Sigtryggur Magnússon. Þeir tengjast útgerðinni Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfjarðarbæ sem var nýlega seld til FISK Seafood.
Mike Wheeler, Tom Grøndahl og Steen Parsholt eru í 8., 10. og 11. sæti listans. Þeir mynda stjórn Glitnis HoldCo, félagsins sem heldur utan um eignir Glitnis. Mike Wheeler er breskur endurskoðandi sem situr í stjórn nokkurra fyrirtækja. Steen Parsholt er danskur og situr einnig í stjórn nokkkurra fyrirtækja auk þess að eiga langan feril að baki í bankageiranum. Tom Grøndahl er norskur og hefur einnig langa reynslu úr fjármálageiranum. Hann var m.a. aðstjoðarforstjóri Bergen-bankans og Citibank. Þá er Ragnar Björgvinsson, yfirlögfræðingur Glitnis, í 36. sæti listans.
Í 9. sæti er Benóný Ólafsson, stofnandi Gámaþjónustunnar, sem var seld til GÞ Holding síðasta sumar. Benedikt Rúnar Steingrímsson er einn af 20 stærstu hluthöfunum í fasteignafélaginu Regin og er í 12. sæti listans. Útgerðarmennirnir Jens Valgeir Óskarsson í Grindavík og Friðþór Harðarson í sveitarfélaginu Hornafirði eru í 14. og 15. sæti.
Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, er í 18. sæti, Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, í 28. sæti og þeir Samherjafrændur Kristján V. Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson í 19. og 25. sæti. Grímur Sæmundsen, stjórnandi Bláa lónsins, er svo í 24. sæti og lögfræðingurinn og fyrrverandi alþingismaðurinn Lúðvík Bergvinsson í sæti 33.
Hér má sjá listann í heild sinni: