Ferðamenn með 46% af veltu veitingaþjónustu

Ferðamenn í Hljómskálagarðinum.
Ferðamenn í Hljómskálagarðinum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjöldi ferðamanna á síðasta ári var tæplega 2,7 milljónir og fjölgaði þeim um 25,4% á milli ára. Er hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu 8,6% og hækkar úr 8,1% árið áður og 6,2% árið 2015. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga sem Hagstofa Íslands gefur út. Erlendir ferðamenn standa undir 46% af veltu veitingaþjónustu og 29% af veltu afþreyingar- og tómstundarstarfsemi.

Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands 2.690.465 árið 2017. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu komu tæplega 2,2 milljónir erlendra farþega hingað til lands í gegnum Keflavíkurflugvöll. Aðrir koma meðal annars með ferjum, skemmtiferðaskipum og einkaflugi. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fjölgaði um 24,1% sem er mun meiri aukning en í fjölda gistinátta sem fjölgaði um 7,3%.

Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu 376,6 milljörðum króna árið 2017 samanborið við 346 milljarða króna árið 2016. Tæpur fjórðungur útgjaldanna var vegna kaupa á gistiþjónustu eða 85,6 milljarðar króna. Þá greiddu erlendir ferðamenn 71,4 milljarða til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og 65 milljarða til innlendra flugfélaga vegna fargjalda hingað til lands og innanlands.

Útgjöld erlendra ferðamanna vega hlutfallslega mest í þjónustugreinum sem beint tengjast ferðamönnum. Hér má nefna ferðaskrifstofur, hótel og gistiheimili, bílaleigur og farþegaflutninga. Útgjöld erlendra ferðamanna í starfsemi sem fyrst og fremst snýr að heimamarkaði hefur þó farið vaxandi. Árið 2017 stóðu erlendir ferðamenn undir 46% af starfsemi veitingaþjónustu hérlendis, 29% af afþreyingar- og tómstundastarfsemi, 13,6% af menningarstarfsemi og 4,5% af verslun.

Neysla erlendra ferðamanna var 376,6 milljarðar á síðasta ári, en til samanburðar er áætlað að neysla innlendra ferðamanna hafi verið 130,6 milljarðar.

Þegar horft er til ákveðinna atvinnugreina sem hlutfalls af landsframleiðslu er ferðaþjónustan stærri en fiskveiðar og fiskvinnsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta og framleiðsla önnur en fiskvinnsla. Aftur á móti er heild- og smávöruverslun stærri en ferðaþjónustan.

Graf/Hagstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK