Matsfyrirtækið Moody's hefur brett horfum fyrir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands úr stöðugum í jákvæðar. Þá hefur fyrirtækið staðfest lánshæfiseinkunnina A3 fyrir langtímaskuldbindingar.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að lykilforsendur breytinganna séu aukinn þróttur hagkerfisins í ljósi bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins, stöðugri hagvaxtar og vaxandi styrkleika bankakerfisins. Þá séu horfur á því að skuldastaða ríkisins verði betri en væntingar stóðu til.
Lánshæfismat ríkisins hjá Moody's hefur verið í flokknum A3 frá í september 2016, en þá voru losun fjármagnshafta og lausn aflandskrónuvandans nefndar sem áhyggjuþættir.
Fram kemur að Moody's myndi íhuga að hækka einkunn ríkissjóðs ef stjórnvöld ná markmiðum um bætt skuldahlutföll og stöðu ríkisfjármála og ef þeim tekst að „stýra hagkerfinu til mjúkrar lendingar“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Þá sé nauðsynlegt að kjarasamningar verði ekki til þess að grafa undan ytri stöðu þjóðarbúsins.