Verð á hlutabréfum í Icelandair Group hafa lækkað um rúm 10% í viðskiptum dagsins í kauphöllinni. Félagið greindi frá því í gær að 2,7 milljarða kr. tap hefði verið á rekstrinum á öðrum ársfjórðungi.
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, sagði í fréttatilkynningu, sem var send út í gær, að afkoman hefði verið lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, en yfirskrift tilkynningarinnar frá flugfélaginu var „Krefjandi árferði“.
Heildartekjur félagsins jukust um 9% milli ára og námu 399 milljónum dala samanborið við 367,3 milljónir dala árið áður.
EBITDA nam 14,7 milljónum dala samanborið við 40,6 milljónir dala á síðasta ári.
Fram kemur í tilkynningunni, að þrýstingur á fargjöld, lakari sætanýting og einskiptiskostnaður vegna truflana í flugáætlun skýri lækkun á afkomu á milli ára.