Nærri sjö þúsund færri flugu innanlands í júlí í ár en á sama tíma í fyrra. Breytt samsetning erlendra ferðamanna hefur þar mikil áhrif. Þetta kemur fram í umfjöllun Túrista.
Rétt rúmlega 77 þúsund farþegar flugu innanlands í júlí og er það samdráttur um 6 þúsund farþega frá sama tíma í fyrra. Til samanburðar fækkaði farþegum í innanlandsflugi samtals um 8 þúsund á fyrri helmingi ársins og niðursveiflan í júlí því mikil.
Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir að skýringuna á þessari þróun sé að meðal annars að finna í breyttri samsetningu erlendra ferðamanna. Árni gerir ráð fyrir sambærilegri þróun í nýliðnum ágúst en tölur fyrir mánuðinn liggja ekki fyrir.
Ásgeir Örn Þorsteinsson hjá flugfélaginu Erni segir að þar á bæ hafi orðið fækkun í fluginu til Húsavíkur líkt og við var að búast því stórum framkvæmdum þar sé nánast lokið. Slæmt veður dró úr eftirspurn eftir útsýnisflugi frá Reykjavík og eins flugferðum til Vestmannaeyja.