Líkt og fram kom í frétt mbl.is í gær nam viðskiptaafgangur á öðrum ársfjórðungi 1,6 milljörðum króna í ár. Á sama tíma í fyrra nam hins vegar viðskiptaafgangurinn 11,9 milljörðum króna og er því um að ræða 86% samdrátt á milli ára. Greiningadeild Arion-banka fjallar um þetta í nýjustu markaðspunktum sínum og segir þar að minni þjónustuafgangur vegi þungt.
Vöruskiptahalli í ár er meiri en í fyrra og minni afgangur er af þjónustuviðskiptum. Samtals nema þessar stærðir 9,5 milljörðum króna. Þegar kemur að þjónustuviðskiptunum má þó finna nokkra jákvæða punkta. Útflutningur reyndist þrautseigari en á horfðist og hver ferðamaður eyðir að jafnaði meiru í krónum talið.
Þá fóru frumþáttatekjur, laun og fjárfestingatekjur sem innlendir aðilar fá greitt frá erlendum aðilum að frádreginni þeirri upphæð sem innlendir aðilar greiða erlendum aðilum úr því að vera jákvæðar um 2,5 milljarða niður í 104 milljónir króna. Skiptir hér mestu að tekjur af beinni erlendri fjárfestingu voru minni en á móti því vegur hins vegar sú staðrend að tekjur erlendra aðila af beinni fjárfestingu hér á landi drógust einnig saman.
Rekstrarframlög voru aftur á móti ekki jafn neikvæð og fyrir ári og er breytingin á milli ára 1,7 milljarðar króna.