Staða WOW Air er langlíklegasta skýringin á veikingu íslensku krónunnar að mati Daníels Svavarssonar, forstöðumanns hagfræðideildar Landsbankans. Íslenska krónan veiktist talsvert um miðjan dag gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum á tímabili. Þannig hafði gengisvísitala hækkað um 2,45% upp úr klukkan 14 í dag.
Seðlabankinn greip inn í lækkun krónunnar í dag og telur Daníel að inngripið hafi verið jákvætt. „Það róar markaðinn og vonandi almenning. En það er ljóst að ef WOW lendir í alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum þá verður það mikið högg, en Seðlabankinn hefur öll þau verkfæri sem til þarf til að vinna úr þeirri stöðu sem kemur upp,“ segir hann.
Fréttir af skuldabréfaútboði WOW air eru væntanlegar í vikulok þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins vænta þess að geta skýrt nánar frá gangi mála.
Í gær greindi Morgunblaðið frá því að forsvarsmenn WOW reru nú öllum árum að því að tryggja að lágmarki 50 milljóna dala fjármögnun og til handa starfseminni jafngildi um 5,6 milljarða króna, og funduðu fulltrúar stjórnvalda nú um helgina vegna málefna flugfélagsins.
Daníel segir að ef niðurstaðan verði jákvæð muni gjaldeyrismarkaðurinn róast en ef hún verði neikvæð megi áfram búast við titringi á gjaldeyrismarkaði.