Í gær voru erlendir fjárfestar búnir að skrá sig fyrir um 45 milljónum evra í útboði WOW air, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins í dag. Enn er unnið að því að fá fjárfesti sem leggur félaginu til tugi milljóna evra í hlutafé að því er heimildir Fréttablaðsins herma.
Síðustu vikur hafa forsvarsmenn flugfélagsins í samráði við fjármálafyrirtæki, innlend og erlend, unnið að því að tryggja félaginu að minnsta kosti 50 milljónir dollara með útgáfu skuldabréfa og í frétt Fréttablaðsins segir að nú sé sú vinna á lokametrunum.
Rekstrarumhverfi WOW air hefur versnað undanfarið en samkvæmt áætlunum félagsins er gert ráð fyrir verulegum umskiptum á næstu misserum.