Í viðtali sem birt er í morgun á fréttasíðu Financial Times segir Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, að hann stefni á að sækja nýtt fjármagn til rekstrar félagsins í gegnum hlutafjárútboð og skráningu þess á markað. Stefnir hann á að ráðist verði í það innan 18 mánaða.
Þá greinir hann frá því að hann hyggist selja innan við helming í félaginu með útboðinu og að ætlunin sé að safna 22 til 33 milljörðum króna með því.
Við umfjöllun Financial Times er rekstur félagsins síðustu misseri rakinn og bent á að félagið hafi tapað 27,5 milljónum dollara fyrir skatta á nýliðnu ári. Í viðtalinu segir að áætlanir geri ráð fyrir að félagið muni tapa 6 milljónum dollara á yfirstandandi rekstrarári, jafnvirði 655 milljóna króna. Sú upphæð stangast hins vegar á við þær upplýsingar sem Pareto Securities hefur birt í tengslum við yfirstandandi skuldabréfaútboð. Þar er gert ráð fyrir að tapið af rekstrinum muni nema 3,4 milljörðum króna á árinu 2018.
Í viðtalinu segir Skúli að ekki hafi reynst mögulegt að halda aftur af kostnaði í rekstrinum. „Eldsneytið hefur augljóslega unnið gegn okkur. Við erum ekki varin. Við erum að endurskoða þá aðferðafræði.“ Bendir FT á að í lok ágúst hafi þotueldsneyti hækkað um 92 dollara á tunnuna, eða um fjórðung frá sama tíma í fyrra.