Skuldabréfaútboði WOW air lauk í dag og nemur stærð skuldabréfaflokksins 60 milljónum evra. Þar af hafa 50 milljónir evra þegar verið seldar og 10 milljónir verða seldar fjárfestum í framhaldinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Pareto Securities hefur fyrir hönd WOW air umsjón með skuldabréfaútboðinu ásamt Arctica Finance. Bréfin verða gefin út með rafrænum hætti í Værdipapirsentralen ASA í Noregi og verða í kjölfarið skráð til viðskipta í Nasdaq-kauphöllinni í Stokkhólmi. Þátttakendur voru bæði innlendir og erlendir fjárfestar.
WOW air hefur jafnframt ráðið Arion banka og Arctica Finance til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins innan 12-18 mánaða, bæði hérlendis og erlendis.
„Við þökkum fyrir þann mikla stuðning sem félagið hefur fengið í gegnum þetta ferli sem og öllum þeim sem tóku þátt í útboðinu. Niðurstaðan er okkur hjá WOW air mikil hvatning til að halda áfram okkar góða starfi og efla enn frekar alþjóðlegt flug og ferðaþjónustu hér á landi,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW air, í fréttatilkynningunni en hann býður ekki upp á viðtöl að svo stöddu.
Í upplýsingum frá Pareto Securites segir að vaxtaviðmiðið sé Euribor-vextir en þó aldrei undir 0%. Í dag eru 3 mánaða Euribor-vextir í 0,319%. Það þýðir að vaxtakjör skuldabréfanna eru 9% að tryggingum viðbættum. Ekki kemur fram í upplýsingunum frá Pareto Securities hverjar þær eru.