Álrisinn Norsk Hydro tilkynnti í dag að framleiðslu í stórri súrálsverksmiðju fyrirtækisins í Brasilíu yrði hætt eftir að hafa ekki fengið leyfi fyrir förgunarstað fyrir úrgang. Verið er það stærsta í heimi. Í kjölfarið lækkaði verð hlutabréfa félagsins um 8% er kauphöllin í Ósló opnaði í morgun.
Í frétt Dagens Næringsliv segir að framleiðsla súrálsverksmiðjunnar Alunorte í Brasilíu hafi verið dregin saman um helming í mars að fyrirskipan stjórnvalda þar í landi. Hafa stjórnvöld sakað félagið um að menga vatn á Barcarena-svæðinu með leifum af báxíti sem notað er til framleiðslu súráls. Segja stjórnvöld að í kölfar mikilla rigninga í febrúar hafi förgunarstaður yfirfyllst með þessum afleiðingum. Fyrirtækið neitar að mengun hafi lekið frá starfsemi álversins.
Í september skrifuðu báðir aðilar undir samkomulag um að leysa ágreining sinn um umhverfismálin. Norsk Hydro hefur hins vegar ekki fengið að leyfi til að auka við framleiðsluna á ný. Þá hefur fyrirtækinu heldur ekki verið leyft að koma fyrir nýjum geymi fyrir úrgang.
Förgunarstaðurinn er að sögn fyrritækisins að fyllast hraðar en ráð hafði verið fyrir gert og því verði framleiðsla Alunorte stöðvuð með öllu tímabundið.
Talið er að lokun verksmiðjunnar eigi eftir að hafa áhrif á súrálverð í heiminum.
Alunorte-verksmiðjan er í 92% eigu Norsk Hydro og þar er framleitt um 10% af öllu súráli heimsins fyrir utan það sem framleitt er í Kína, segir í frétt AFP.
Í yfirlýsingu Norsk Hydro í morgun segir að enn sé of snemmt að segja til um hverjar afleiðingar lokunarinnar verði á félagið en ljóst sé að þær verði töluverðar, m.a. á fjárhag félagsins.