Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25%. Ef verðbólgan eykst áfram mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað. Þetta kemur fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.
„Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga var hagvöxtur á síðasta ári og á fyrri hluta þessa árs meiri en gert var ráð fyrir í ágústhefti Peningamála. Spennan í þjóðarbúskapnum gæti því hafa verið meiri en spáð var. Hins vegar benda hátíðnivísbendingar og kannanir til að mögulega dragi hraðar úr vexti eftirspurnar en áður var talið.
Verðbólga jókst milli fjórðunga á þriðja fjórðungi ársins eins og spáð var í ágúst. Verðbólga án húsnæðis hefur einnig aukist og munurinn milli mælikvarða á verðbólgu með og án húsnæðis hefur minnkað mikið. Áfram dregur úr árshækkun húsnæðisverðs en á móti vegur að innflutningsverð hefur hækkað umtalsvert að undanförnu. Að hluta endurspeglar það hraða hækkun olíuverðs á alþjóðamarkaði. Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi peningastefnunefndar og gengisflökt jókst í september m.a. vegna óvissu um fjármögnun eins af stóru flugfélögum landsins.
Verðbólguvæntingar úr könnunum hafa haldist óbreyttar frá síðasta fundi peningastefnunefndar en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað. Á alla mælikvarða virðast verðbólguvæntingar vera nokkuð yfir markmiði. Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi.
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.